Færslusafn fyrir flokkinn: Sögur

Skilaboð frá Jóhanni Líndal:

Kæru ætingjar og aðrir aðstandendur. Ég var með nokkrar brandara sem ég ætlaði að lesa upp á kvöldvökunni á ættarmótinu í Sælingsdal (2019) en vegna óviðráðanlegra orsaka heyrðist lítið í mér í hljóðnemanum. Mig langar  því að leyfa ykkur að lesa þá hér á síðu Línu Dalrósar.

 1. Jökull Jakobsson í Reykjavík átti vin í Vestmannaeyjum. Þeir áttu það til að hringja í hvorn annan í tíma og ótíma þegar þeir fengu sér í glas. Vinurinn í Vestmannaeyjum hringdi í félaga sinn eitt sinn kl. 03 að nóttu til og sagði honum að að það væri komið eldgos í Eyjunni. „Leggðu þig bara vinur“ sagði Jökull „ þetta verður allt í lagi í fyrramálið þegar þú vaknar“. Vinurinn í Vestmannaeyjum bað Jökul að opna fyrir útvarpið. Þar var verið að spila Tango eftir jacob Gade (Jalousie) „Þá veit ég það“ sagði Jökull „að þegar það fer að gjósa á Íslandi spila þeir Tangó í ríkisútvarpinu“.
 2. Það sagði mér eldri maður sem vann hjá mér þegar ég var með nokkra menn í vinnu á Hólmavík, að sú saga hefði verði sögð af séra Jóhanni Bergvinssyni (afa mínum) þegar hann var prestur á Stað að þegar hann hafi verið að jarða konu af næsta bæ, höfðu líkmennirnir slegið kistunni svo harkalega í járnhlið við kirkjugarðinn að sú sem var í kistunni rak upp öskur! Nokkrum árum seinna dó konana „aftur“. Sagt var að séra Jóhann hafi staðið við kirkjudyrnar og kallað á eftir líkmönnunum „ Í Guðanna bænum farið nú varlega piltar!“
 3. Kaupfélagið á Ísafirði sá um slátur fyrir bændur í djúpinu og eins fyrir bændur inn í firði. Bændur í djúpinu grunuðu að það væri ekki allt með felldu varðandi viðskiptin og þeir kærðu Kaupfélagið fyrri að stela öllum hrútspungunum. Bændur auglýstu því þannig í glugga Kaupfélagsins – „Tökum punga af félagsmönnum upp í sláturkostnað“ Ísfirðingar sögðust hafa sé margar eiginkonur gráta við lesturinn.
 4. Helgi Ben í Vestmannaeyjum auglýsti eftir manni til starfa í veiðafæragerðina. Ungur piltur mætti í viðtalið. Helgi: Ert þú ekki strákurinn sem stalst bátnum um daginn og fórst að veiða fyrir utan? Pilturinn: Jú en ert þú ekki maðurinn sem gleypti víxilinn þarna um árið frá Útvegsbankanum? „Jú jú“ segir Helgi og hringdi niður í veiðafæragerðina og sagðist vera búinn að ráða frábæran ungan dreng. „Takið vel á móti honum“
 5. Napoleon Bonapart átti í vandræðum með konu sína Jósafínu. Hún var svo lauslát. Hann lét smíða skírlífsbelti á hana úr járni og læsti því og fól svo besta vini sínum að geyma lykilinn vandlega. Ekki hafði Napoleon verið lengi á veiðum þegar vinurinn kom þeysandi á eftir honum og sagði að lykilinn passaði ekki.
 6. Þegar Halldór Laxnes lá sína síðustu daga á Reykjalundi kom seinni kona hans í heimsókn til hans. „Þekkir þú mig ekki Halldór minn?“ – „Nei, ég minnist ekki að hafa séð þig“. „Hvað segir þú!?“ sagði konan „Við sem vorum gift í 18 ár!“ –  „Var það farsælt hjónaband?“
 7. Úr ættbók prestsins úr þystilfyrði árið 1820: Sagt er að hann hafi sent pilt til kollega síns á stórbýli á Austfjörðum til að skrifa skýrslur, hann dvaldi þar í 10 daga. Á heimilinu voru 4 ungar stúlkur.   Þremur mánuðum seinna sendi presturinn á Austfjörðum prestinum í Þystilfirði bréf og sagði honum að 3 af stúlkunum sínum væru ófrískar af völdum piltsins. Prestur sendir eftir piltinum sem hafði farið fyrir hann og spurði hann hvort þetta geti staðist?  Pilturinn brosti, leit upp í loftið og sagði: „Þá hefur ein sloppið“
 8. Tveir ungir bræður komu í Apótek og vildu kaupa Tampex. Afgreiðslukonan brosti sætt til þeirra og sagði: Mikið eruð þið duglegir að fara út í búð fyrir mömmu ykkar. „Þetta er ekki fyrir mömmu okkar, þetta er fyrir okkur.“ sagði annar.  Nú? Hvað ætlið þið að gera við þetta? „Við sáum auglýsingu í sjónvarpinu, að ef maður er með Tampex þá getur maður bæði hjólað og synt. „bróðir Minn kann ekki að synda og ég kann ekki að hjóla“
 9. Hemmi Gunn var einu sinni að tala við 7 ára gamla stúlku í þættinum sínum – Hjá Hemma – „Gasalega ertu sæt og fín, ný komin úr baði?“ Stelpan þagði smástund og sagði svo „Ég hef ekki farið í bað mjög lengi, pabbi og mamma er eru alltaf að nota baðkarið, þau eru nefnilega að brugga“!
 10. Ólafur Kristjáns í Bolungarvík var einu sinni að koma frá Reykjanesi í Djúpi þegar það sprakk á dekki bílsins, rétt nálægt heimili séra Baldurs í Reykjafirði. Það var svo blautur jarðvegurinn þarna svo hann fékk lánaðar járnplötu hjá séra Baldri undir tjakkinn sinn. Áður en hann fór, kallaði hann til séra Baldurs „ Þegar ég kem til Ísafjarðar skal ég senda þér Vodka flösku!“ –  „Elsku vinur, hafðu það stóra Whisky flösku og láttu fylgja einn bjórkassa með!“
 11. Bóndi kom af næsta bæ og spurði 9 ára gamlan dreng sem kom til dyrir: Er pabbi þinn heima? Nei segir sá litli. En er mamma þín heima? Nei – en Bjössi bróðir þinn? Nei, þau fóru öll í Kaupstað. Er það nokkuð sem ég get gert spyr strákurinn?  – Nei það held ég ekki. Hann Bjössi bróðir þinn er búinn að gera hana Sirrý dóttur mína ólétta!! Þá verður þú að tala við hann pabba. – ég veit að hann tekur 1000 kr. fyrir folann og 600 kr. fyrir nautið en ég veit ekki hvað hann tekur fyrir Bjössa bróðir
 12. Adolf Björnsson var rafveitustjóri á Sauðárkróki frá 1949. Kvöld eitt vildi Stefanía kona hans fara að sjá bíómynd sem átti að sýna kl. 21:00. Adolf sagðist ekki geta farið í bíó um kvöldið. Hann þyrfti að ganga frá skjölum sem áttu að fara með póstbílnum kl.22:00 sama kvöld. – Það fauk í frúna!           Seinna þennan sama dag sendir systir Stefaníu, 7 ára gamla dóttur sína til Stefaníu til að fá lánaðan drullusokk. „Elskan mín, segðu mömmu þinni að hann komi ekki heim fyrr en eftir kl. 22:00 í kvöld!
 13. Drukkinn maður, angandi af vínlykt, sat við hliðina á katþólskum presti í strætisvagninum. Bindið var fráflakandi og andlitið með varalitaklessum og flöskustútur stóð upp úr frakkavasanum. Hann tók dagblað upp úr vasa sínum og las nokkra stund. Svo sneri hann sér að prestinum og sagði „Segðu mér nú prestur minn, hvers vegna fær maður gigt?“ „Já, sonur sæll“ sagði presturinn. „Hún kemur af ábyrgðarlausu líferni í slæmum félagsska, of mikilli áfengisdrykkju, virðingarleysi fyrir samfélaginu, sofa hjá ódýrum vændiskonum, baða sig ekki og þess háttar.“ „já, slæmt er það“ sagði sá drukkni og hélt áfram að lesa blaðið. Presturinn fór nú að hugsa um að hann hafi nú kannski verið heldur dómharður við drukkna manninn, svo hann snéri sér að honum og sagði „Fyrirgefðu, ég hef kannski verið heldur harðorður varðandi gigtina. Ertu búinn að vera með gigt lengi?“ „Ég er ekki gigtveikur. Það er sagt í blaðinu að páfinn sé illa haldinn af gigt.“

 

Linda Rós Kristjónsdóttir  barnabarn Línu flutti þennan fyrirlestur á Þuríðardeginum 29. maí 2014:

 

Lína Dalrós Gísladóttir

Lína Dalrós Gísladóttir

 

 

 

 Alþýðukonan Lína Dalrós Gísladóttir.

 

 

Á 110 ára árstíð ömmu minnar Línu Dalrósar langar mig til að segja frá lífshlaupi hennar í stuttu máli.

Að hluta til er frásögnin upp úr bókinni Bernskdagar eftir son hennar og móðurbróður minn Óskar Jóhannsson, kaupmann sem kom út um síðustu jól.

Amma fæddist í Tröð í Bolungarvík og voru foreldrar hennar Elísabet Guðmundsdóttir, sem fædd var í Skálavík,  og Gísli „skáldi“Jónsson sem  var fæddur að Tindi í Miðdal í Strandasýslu. Gísli var vinnumaður í Tröð þegar þetta var og  Elísabet vinnukona á sama bæ.

Þann 22. september 1904 fæddist þeim dóttir, og þar sem þau höfðu bæði eignast börn áður og voru vinnuhjú var Línu komið í fóstur til frænda Elísabetar, Guðmundar á Geirastöðum í Syðridal eins og títt var í þá daga þegar kjörin voru kröpp og reynt að koma börnum fyrir þar sem nóg var að bíta brenna.  Þar var hún alin upp. Hún hafði lítið af foreldrum sínum að segja og þeim systkinum sem síðar fæddust þrátt fyrir að þetta væri ekki löng vegalengd rétt um 3 kílómetrar en samgöngur öllu erfiðari í þá daga. Gísli sagði þó að hún væri rósin hans í dalnum og  því var hún  skírð Lína Dalrós. Gísli var skáld og orti þetta ljóð um Línu Dalrós dóttur sína:

Fríðikala faldalín
Flestir tala um gæði þín
Fjōrs um bala bjarta skín
Blessuð dalarósin mín
 
Frjáls um stundir fallvaltar
Fagurt sprundið athugar
Komið undir ōllu er þar
Að ná fundi guðssonar
 
Í orðum prúð þá á þér skín
Unaðsskrúði faldalín
Á guð trúðu elskan mín
Undirbúðu sálu þín
 
Hitadija hrundin fín
Hirtu hlýju ráð til þín
Hróðrargíja heftist mín
Hér er nýársgjöfin mín.

 

Elísabet og Gísli eignuðust fimm börn í viðbót og var ein dóttir þeirra Sveinfríður sem var móðir Hávarðar Olgeirssonar heitins, sem bjó alla sína tíð hér í Bolungarvík og sjálfsagt margir þekktu, en Sveinfríður lést rúmlega tvítug.

Amma þurfti að vinna mikið sem barn og vakti fljótt athygli fyrir einstakan dugnað þrátt fyrir að vera grönn og smávaxin. Hluta úr tveimur vetrum var hún í barnaskólanum í Bolungarvík og hélt þá til hjá vinafólki  Geirastaðahjónanna, en foreldrar hennar höfðu ekki aðstæður til að hýsa hana.

Amma mín og afi Jóhann Sigurðsson sem var frá Vonarholti í Arnkötludal,  kynntust þegar afi var að verða þrítugur og amma rétt að verða sautján ára. Afi hafði komið ásamt fleiri mönnum í atvinnuleit  til Bolungarvíkur  frostaveturinn mikla  1918 þegar lá við hungursneið í landinu. Þeir komu  gangandi  yfir Djúpið  úr Strandasýslunni  en innri hluti Ísafjarðardjúps var  ísi lagður. Jóhann var harðduglegur vinnugarpur og þúsundþjalasmiður og eftirsóttur til starfa af samtímamönnum sínum. En hafði líka létta lund og felldu þau fljótt hugi saman. Í mars 1922 eignuðust afi og amma svo fyrsta barnið og var hún skírð  Guðmunda Sigríður.  Hún var eina barn ömmu sem bjó alltaf hér fyrir vestan, og er hún amma Sigríðar Ingu sem býr hér í Bolungarvík.

Fljótlega keypti afi  lítið hús , sem áður var verbúð, á fjörukambinum nokkru utan við Brimbrjótinn sem nú heitir Hafnargata þar sem frystihúsið stendur nú. Eftir að hann hafði lagfært húsið og stækkað fluttu þau með dóttur sína þangað. Húsið var um 36 fermetrar að stærð með risi  sem var um það bil eins metra hátt. Í hjalli sem þau höfðu við húsið var matvarningur sem afi sá um að selja en hann og vinur hans Sakarías á Gili stofnuðu til viðskiptasambands á milli sjómanna í Bolungarvík og vænda á Ströndum. Seldu þeir kæfubelgi og hnoðmör fyrir bændur norðan af Ströndum í skiptum fyrir herta þorskhausa og harðfisk. Árið 1930 voru þau búin að eignast 7 börn en þau misstu eitt þeirra Guðbjörgu Kristínu sem lést vöggudauða. Það kom síðan önnur Guðbjörg síðar sem er móðir mín. Í þessu húsi áttu þau og síðan síðari maður ömmu Línu öll sín börn 11 að tölu.

Haustið 1931 veiktist afi og var rúmfastur heima í tæpt ár.  Hann lést svo í ágúst 1932 og þá var amma orðin ekkja, 27 ára gömul með 6 börn á aldrinum eins til tíu ára.

 

Þegar þetta var hafði afi fasta vinnu við lifrarbræðslu Einars Guðfinnssonar, en þegar hann  var orðinn veikur gekk amma inn í hans starf til að sjá heimilinu farborða og vann í bræðslunni. Þá var ekki fyrir að fara almannatryggingum eins og í því velferðarkerfi sem við búum nú við. Lína amma kom með pappírana heim á kvöldin og afi færði inn í bækurnar á meðan hann gat en svo kom að því að hann hafði ekki lengur þrek til þess um og sá hún þá um skráninguna, móttöku, flokkun, og söltun á hrognum. Þetta gerði hún þó að hún væri á þessum tíma sjálf heilsulítil og hefði þurft á læknishjálp á halda. Einar Guðfinnsson greiddi afa full laun allan þann tíma sem kom sér vel þrátt fyrir að amma sinnti starfi hans.  Í ævisögu sinni,  lýsti hann Línu Dalrós meðal sinna allra bestu starfsmanna um dagana og segir Bolvíkinga stolta af að hafa átt eina lifrarbræðslumanninn í pilsi á Íslandi. Amma vann úti alla tíð í Fiskverkun Einars Guðfinnssonar og starfaði við fiskvinnluna allt þar til hún var um 75 ára gömul þegar hún þurfti að hætta vegna veikinda.

Læknirinn sem hafði hugsað um afa í veikindum hans flutti til Siglufjarðar um þetta leyti. Einu sinni á ári í tíu ár fékk amma reikninginn fyrir læknisþjónustunni,  en hún gat aldrei borgað. Þetta er ábyggilega eini reikningurinn sem Lína Dalrós borgaði ekki um dagana enda var hún útsjónarsöm og fór vel með og gerði allt til að standa sig við að framfleyta fjölskyldunni eins vel og henn var fært.

Amma lagði mikla áherslu á að hafa börnin hjá sér. Hreppsnefndin sá að það yrði útgjaldaminna fyrir hreppinn að hjálpa henni með úttekt í verslun, ef með þyrfti, frekar en að borga með  einhverju af börnunum hjá vandalausum,  sem oftast var eina ráðið þegar svona var komið.  Þegar amma neyddist til að biðja hreppinn um eitthvað matarkyns skrifaði hún á blað þær vörur sem hún þurfti að fá, og Guðmunda fór með það á hreppsskrifstofuna. Þar var það bókað og gefið leyfi fyrir úttekt. Svo var farið með blaðið í búðina og vörurnar afgreiddar. Einnig var fólkið í Bolungarvík sérstaklega vingjarnlegt við fjölskylduna. Þegar bátarnir komu af sjónum og krakkarnir fóru niður á Brjót, og spurðu einhvern sjómanninn hvort hann gæti gefið ömmu í soðið var það undantekningarlaust gert með glöðu geði. Oftar en ekki var valinn feitur steinbítur eða væn ýsa. Svona lögðust allir á eitt til að enginn færi sársvangur til svefns og samhugur hjá bæjarbúum og vil ég hér með þakka fyrir þá velvild sem amma naut hjá Bolvíkingum.

Sóknarpresturinn, séra Páll Sigurðsson var ekki í Bolungarvík þegar afi dó og þegar hann kom ,spurði hann ömmu hvernig hún tæki þessari breytingu, að vera orðin ein með börnin. „Hvernig ég tek því?“ hafði hún sagt.“Auðvitað tek ég því eins og hverju öðru sem mér er ætlað að ráða fram úr og reyni að standa mig í því eftir bestu getu , eða er okkur ekki  kennt það?“

 

Á þessu sést að hún hafði mikinn skapstyrk og barðist fyrir framfærslu fjölskyldu sinnar með margvíslegum hætti. Hún var mjög trúuð og kirkjurækin og sótti messu á hverjum sunnudegi á upphlutnum sínum. Held ég að það hafi hjálpað henni  í gegnum erfiðleikana að eiga almættið að þegar að kreppti. Með mikilli útsjónarsemi, sparnaði og agaðri stjórnun tókst henni að halda fjölskyldunni saman til að byrja með. Síðar fór móðir mín, Guðbjörg á sjöunda ári í fóstur til Guðrúnar föðursystur sinnar í Reykjavík sem rak matsölu fyrir kostgangara heima hjá sér en hún var ógift og bauðst til að taka hana í fóstur. Hún tók einnig Óskar að sér þegar hann var um fermingu og þegar Jóhann Líndal sem síðar varð rafveitustjóri hér í Bolungarvík fór til náms í Iðnskólann í Reykjavík hélt hún honum einnig heimili.  Gísli næstelsta barnið var hinsvegar komið fyrir í fóstur á Hóli hér í Bolungarvík. Það er ef til vill merki um skapfestu ömmu að þegar Gísla var kennt barn um 16 ára aldur eftir að hafa verið vinnumaður í Æðey í skamma tíð sendi bóndinn bréf til ömmu og sagði að Gísla væri kennt barn og því þyrfti hann að vera áfram í Æðey sem vinnumaður hjá sér því hann yrði að vinna fyrir barninu. Sendi amma þá bréf til baka og sagðist mundi taka barnið í fóstur því hún vildi ekki binda son sinn þar til langframa. Úr þessu varð þó ekki og ól bóndinn þessa stúlku upp sjálfur. Seinna meir var það hinsvegar hún sem tók ættmenni í fóstur um lengri eða skemmri tíma. Mörg ömmubörnin sá hún um á sumrin og mér var komið í fóstur til hennar, en fjölskylda mín bjó í Reykjavík, um fjögurra ára aldur í eitt og hálft ár í kjölfarið á veikindum föður míns en við vorum þá orðin fimm systkinin sem áttu þó eftir verða tíu og bjó ég hjá Línu og Jóni þar til ég hóf skólagöngu í Ísaksskóla um sex ára aldur. Amma var mér afar kær þó að ég mun takmarkað frá þessum tíma en ég átti eftir að rifja betur upp okkar tengsl er ég kom svo vestur í húsmæðraskólann. Þá tengdumst við miklum böndum og höfðum mikil samskipti. Þá var hún nýlega flutt á skólastíginn sem stendur á horni Skólastígs og Völusteinsstrætis. Þar fann maður strax hvað var góður andi í húsinu og alltaf tekið vel á móti manni með bakkelsi og súkkulaði. Það hús var ekki miklu stærra en húsið á Hafnargötunni, sjálft húsið á tveimur hæðum var rétt um 36 fermetrar en viðbyggingin á milli 20 – 30 fermetrar. Amma var einstaklega dugleg húsmóðir, síbakandi, takandi slátur eins og títt var og aðstoðaði aðra við sláturgerð og fleira. Amma var vel lesin þó ekki hafi hún notið langrar skólagöngu og þar sem hún var mjög minnug og hafði góða frásagnar gáfu var gaman að vera í návistum við hana og heyra sögur en aldrei minnist ég þess að hún hafi sagt nokkuð neikvætt um nokkurn mann. Hún var líka afar barngóð svo að börnin hændust mjög að henni. Amma bað aldrei um hjálp og vildi gera hlutina sjálf. Það var helst að hún þæði hjálp þegar hún var orðin mjög fullorðin í garðinum en það varð að vera að okkar frumkvæði því hún fór ekki bónarveg að neinum.

 

Amma  var góðum gáfum gædd, stálminnug, og hélt andlegri reisn sinni fram til síðustu stundar. Hún var kappsöm í störfum  og afar ósérhlífin, kvik í hreyfingum og létt á fæti. Henni þótti gaman að dansa, var skyldurækin og samviskusöm heil og hreinskiptin. Hún hafði líka afar gaman af tónlist og var til grammafónn sem mamma mín minnist þegar hún kom á unglingsárunum vestur til að heimsækja mömmu sína. Amma kunni ógrynni af ljóðum og fór gjarnan með ljóð fyrir börnin og söng fyrir þau. Hún var einnig mjög jákvæð og sá alltaf björtu hliðarnar á öllum málum þó svo að erfiðleikarnir væru miklir. Þetta lundafar hennar laðaði samferðamenn hennar að henni fyrir glaðværð og jákvæðni. Það voru margir Bolvíkingarnir sem kölluðu hana ömmu þrátt fyrir að hún hefði engin fjölskyldutengsl við þá enda var hún bæði vingjarnleg og hjálpsöm við þá sem yngri voru og liðsinnti þeim. Þegar við niðjar hennar og ættmenni hittum Bolvíkinga sem voru samferðamenn Línu um einhver tímabil ævinnar finnum við vel fyrir hversu mikillar virðingar og vinsælda hún naut. Afmælisdaga allra sinna afkomenda hafði Lína amma á hreinu og daglangt sat hún við prjóna og sauma og færði tugum afkomenda sinna í fjórða og fimmta ættlið gjafir,  sem hún hafði unnið sjálf. Og ekki má gleyma  görðunum  við húsin sem hún bjó í  við Hafnargötu og Skólastíg sem alltaf báru þess merki að vel  var hugsað um en hún hafði unun af garðyrkju og blómarækt ásamt handavinnu.

Amma Lína var félagslynd og naut þess að vera innan um fólk. Hún var mjög virk í félagsmálum bæði í slysavarnarfélaginu og kvenfélaginu og var m.a.heiðursfélagi í kvenfélaginu Brautinni.

 

Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson sjómaður og eignaðist hún með honum 4 börn. Jón lést árið 1996 en amma lést 14. desember 1997 þá 93 ára að aldri.  Amma mun hafa verið sú kona á Íslandi sem eignaðist hvað mestan fjölda afkomenda í lifandi lífi en þeir voru 240 þegar hún lést en munu vera orðnir um 370 í dag. Í júlílok í sumar munum við  afkomendur Línu Dalrósar koma saman enn á ný í Bolungarvík og minnast þessarar formóður okkar sem er og verður okkur fyrirmynd um dugnað, þrautsegju og bjartsýni á 110 ára árstíð hennar.

Lína Dalrós var alþýðukona sem ólst upp við kröpp kjör hér í Víkinni sem henni var svo kær. Þessi kvika kona sem alltaf var að, skilur eftir sig ævistarf sem margir mega þakka. Takk fyrir og til hamingju með Þuríðardaginn.

Bernskudagar æskusaga Óskars í Sunnubúðinni er nú komin í verslanir

bernskudagar

FRÁ ÓSKARI JÓHANNSSYNI

„Eins og á þessari bók má sjá, hef ég skráð endurminningar frá barnæsku minni.
Megin tilgangur þess, er að láta í ljós þakklæti til forsjónarinnar, frá okkur öllum tíu systkinunum, fyrir að hafa gefið okkur kost á að njóta ástar og umhyggju einstakrar hetju, sem móðir okkar, Lína Dalrós Gísladóttir var.
Einnig ber mér sérstaklega að þakka Guðrúnu föðursystir okkar, allt sem hún gerði fyrir mig.

Frásögn þessi nær til ársins 1943, þegar ég var fimmtán ára. Þá urðu kaflaskipti, er ég hóf störf í matvöruverslun, og árið 1951, gerðist ég einn af “Kaupmönnunum á horninu”, til ársins 1982, frá því að tæplega 200 matvöruverslanir þjónuðu íbúum Reykjavíkur, og þar til að eigendur þeirra lentu, “Á milli steins og sleggju í pólitískum Hráskinnaleik stjórnvalda, og nauðungarvinnu fyrir Vísitölufjölskylduna, sem þá var búin að éta flest allar kaupmanna- fjölskyldurnar út á Gaddinn”.
Ég bauð mig aldrei fram til fálagsstarfa fyrir kaupmenn, hef aldrei þegið laun fyrir þau, en lenti samt í áraraðir á kaf í þeirri vonlausu baráttu. Það er mikil ósögð, og ótrúleg saga, sem ég hef aflað mikilla gagna um, og vonast til að geta komið á framfæri á næsta ári.“ (ÓJ)

Úr ritdómi í Pressunni:

„Bernskudagar er prýðilega skrifuð bók og erfitt að leggja hana frá sér. Hún segir harmræna sögu af fátæku fólki, basli þess, brauðstriti og nöturlegum aðstæðum íslenskrar alþýðu frá byrjun 20. aldarinnar og fram á miðja öldina.“

Hús Línu

Eldra hús Línu Dalrósar í Bolungarvík

Myndina teiknaði Óskar af æskuheimili sínu í Bolungarvík en í bókinni eru margar myndir sem hann hefur teiknað og málað.

Ritdómur um Bernskudaga

Ritdómur um Bernskudaga

Hér er viðtal við Óskar á ÍNN

Sigurður Magnússon

Frá Agnesi Jóhannsdóttur:
Fyrir u.þb. 20 árum var mér gefinn Strandapósturinn 1. árg. 1967, þar sem þessi grein er í um langafa minn þ.e. faðir Jóhanns Sigurðssonar sem var tengdapabbi Línu Dalrósar. Mig langaði að deila þessu með ykkur frændfóki mínu. Ég hafði gaman af að fá þetta í mínar hendur á sínum tíma. Var búin að vera að leita af þessu og svo allt í einu rak ég augun í þetta í bókahillunni hjá mér. Skil ekki hvernig þetta hefur farið fram hjá mér.:

Sigurður Magnússon

ÞANNIG MUNA MENN SIGURÐ MAGNÚSSON

 Hann Siggi Magnússon er kominn, flaug manna á milli um bæinn. Það var eins og vindkviða í mollu hversdagsleikans.

–“ Skyldi hann fara í leiki, syngja og dansa eins og í fyrra, er hann kom hér? Það var svo gaman. Hann fór í vefaraleik, mús og kött. Hann dansaði Óla skans, Jeg har været í London, Liverpool og Hull og margt fleira.

Svo kvað hann, meðal annars um karlinn sem hristi rauðan hausinn “.

Þetta sögðu unglingarnir og bættu við:“Nú má ekki gefa Lappa og Pílu neinn mat í kvöld, því Siggi ætlar að hreinsa þau á morgun.”

Þegar læknar og vísindamenn fundu orsakir sullaveikinnar á síðari hluta nítjándu aldarinnar, voru gefin út lög og strangar reglur um útrýmingu hennar, sem framkvæmd var á þann hátt að eyða bandormum, er höfðust við og tímguðust í meltingarfærum hundsins. Var því gjört að skyldu að fram færi árlega hreinsun þeirra. Urðu hluteigandi sveita- og sýsluyfirvöld að sjá til um það. Þetta verk var leiðinlegt , kaldsamt og óþrifalegt, voru því fáir sem fengust til að vinna það, en til þess að starfið næði tilgangi sínum varð að gæta þess vel að fylgja settum reglum og krafðist það því samviskusemi, trúmennsku og vandvirkni.

Þennan starfa hafði Sigurður á hendi um margra ára bil í innanverðri Strandasýslu og um Dali. – Hvernig hann leysti þetta af hendi, um það þarf ekki að fjölyrða. Samviskusemi og trúmennska var sterkur þáttur í hverju hans starfi.

Á þessum ferðalögum kynntist hann mörgum og persónuleiki hans gerði hann hvarvetna velkominn gest. Hann var sá, er kom langt að, gat blandað geði við fólk og hafði frá mörgu að segja. Koma hans setti svip sinn á heimilin – hans glaða leiklund – þótt ekki væri nema ein til tvær kvöldstundir.

Sigurður gekk oft undir nafninu Siggi hundalæknir. Það lét hann sig litlu skipta. Honum var aðalatriðið að starfið bæri tilætlaðan árangur, enda hinir hættulegu sjúkdómar, höfuðsótt í sauðfé og sullaveiki í mönnum, horfnir á tiltölulega fáum árum.

Á ferðum sínum hafði hann ætíð fyrirferðamikla byrði, föt sín, þar sem langdvöl að heiman var að jafnaði. Þá hafði hann oft með sér smíðatól – “áhöldin “ – því oft dvaldi hann á heimilum um tíma, við “að dikta að “ og smíða búsáhöld, bala, skjólur og kirnur, því margs þurftu búin við í viðhaldi og nýsmíði heimilisgagna.

Þegar Sigurður svo bætti við sig pinklum og pjönkum, vina og kunningja, var byrði hans oft býsna þung. Raddmaður var Sigurður ágætur, en um nám í þeirri mennt var ekki að ræða.

Hann skapaði sjálfur sínar stemmur og kvæðalög og skemmti hlustendum. Við, sem höfðum notið margra ánægjustunda með honum, álítum það verðskuldaðan heiður Sigurði til handa, er tónskáldið Jón Leifs náði á segulband rímnastemmu hans. – – –

—–

—–

– – – Sigurður var á ferð frá Hólmavík heim í sveitina sína, Tungusveit, labbandi að vanda með byrði í bak og fyrir. Hann kom að Hrófá og hitti Þorgeir bónda þar, er býður honum inn. Sigurður kvaðst eitthvað lasinn og linjulegur, ef hann mætti leggjast upp í rúm, sem þegar var veitt og honum hjálpað úr ytri klæðum, engra þrauta kvaðst hann kenna, en eftir fáar mínútur var hann fallinn í hinstu værð. –

Hin sérstæðu persónueinkenni Sigurðar voru svo skýr og sterk, að hann setti svip á samtíðina innan síns byggðarlags. – Því fannst okkur, sem af honum höfðu nokkur kynni, sem einn af sérstæðustu dröngum á Ströndum hefði fallið í hafið:

 

Sigurður Magnússon

Smagn2 Smagn3

Ágrip af sögu Bolungarvíkur

Í Landnámabók segir, að Þuríður sundafyllir nam land í Bolungarvík og bjó að Vatnsnesi í Syðridal.

Flest bendir til þess, að Þuríður og förunautar hennar hafi komið út til Íslands um 940. Þau námu Bolungarvík alla og Skálavík og einn landnámsmannanna, Þjóðólfur bróðir Þuríðar, bjó í Þjóðólfstungu sem síðar var nefnd Tunga í daglegu tali.

Eitthvað voru samskipti þeirra systkina þó stirð á köflum og samkvæmt þjóðsögunni lagði Þjóðólfur á systur sína að hún skyldi daga uppi. Það gekk eftir og varð Þuríður að steini sem enn ber nafn hennar og stendur efst í fjallinu, skammt frá svonefndri Óshyrnu.

Bolungarvík liggur vel að fiskimiðum í utanverðu Ísafjarðardjúpi og út af því og varð snemma helsta verstöð á norðanverðum Vestfjörðum.

Sjávarútvegur var jafnan helsti atvinnuvegur íbúanna og vísir að þéttbýli – sæbýlahverfi – reis á Bolungarvíkurmölum þegar á miðöldum. Þar var annars vegar um að ræða þurrabúðir og hjáleigur frá lögbýlum í Víkinni en hins vegar verbúðir en vermenn voru löngum fjölmennir í Bolungarvík á vertíðum.

Þar var einkum um að ræða menn úr öðrum sveitum við Ísafjarðardjúp en einnig eru mörg dæmi um menn sem voru komnir lengra að. Af miðaldaheimildum er ljóst að höfðingjar og ríkismenn sóttust eftir eignum og aðstöðu í Bolungarvík á fyrri öldum enda var útgerð og skreiðarverkun arðsamur atvinnuvegur eftir að kom fram á 14. og 15. öld.

Alla árabátaöldina var útgerð mikil úr Bolungarvík og réru þaðan tugir báta á hverri vertíð. Þegar kom fram um aldamótin 1900 var þar mesta árabátaverstöð á Vestfjörðum og á vetrarvertíðinni árið 1902 var fyrsta íslenska vélbátnum, Stanley, haldið til veiða úr Bolungarvík. Eftir að vélbátar komu til sögu olli hafnleysi og erfiðar lendingaraðstæður Bolvíkingum erfiðleikum um hríð og var þá hafist handa við gerð brimbrjóts og varanlegra hafnarframkvæmda.

Þær framkvæmdir gengu ekki þrautalaust fyrir sig en varð þó lokið um síðir.

Nú er í Bolungarvík góð höfn og mikinn hluta 20. aldar var þar mikil útgerð togara og stærri vélbáta í bland við minni báta sem margir stunduðu rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hluta úr ári.

Einar Guðfinnsson hf. var lengst af öldinni mest útgerðarfyrirtækja í Bolungarvík og rak, auk útgerðarinnar, umfangsmikla fiskverkun og verslun.

Varanlegt þéttbýli tók að myndast í Bolungarvík á síðari hluta 19. aldar. Það óx hægt framan af en tók kipp með tilkomu vélbátaútgerðar og þó einkum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Flestir urðu íbúar árið 1982, alls 1.298 en hefur fækkað töluvert síðustu árin og eru nú um 950.

Sveitarfélagið, sem tíðast er nefnt Bolungarvík í daglegu tali, hét öldum saman Hólshreppur og náði yfir Bolungarvík og Skálavík sem nú er farin í eyði.

Árið 1974 hlaut sveitarfélagið kaupstaðarréttindi og nefnist upp frá því Bolungarvíkurkaupstaður.

Höfundur: Jón Þ. Þór