Færslusafn fyrir flokkinn: Minningargreinar

Minningargrein í Mbl 20.12.’97,höf. Ólafur Kristjánsson, Bolungarvík.

Lína Dalrós GísladóttirLína Dalrós Gísladóttir á Bolungarvík er látin. Hún hafði átt við vanheilsu að stríða síðustu mánuði auk þess að verða fyrir byltu og lærbrotna tveimur dögum fyrir andlátið.

Fráfall hennar kom því ekki á óvart, aldurinn orðinn hár ­ 93 ár ­ og hún farin að kröftum eftir langa og erfiða en farsæla ævidaga.

Ung að árum giftist hún Jóhanni Sigurðssyni frá Vonarholti, Strandasýslu, og átti með honum sjö börn, en þau misstu eitt skömmu eftir fæðingu. Jóhann lést um aldur fram eftir erfiða sjúkdómslegu. Samvera hans með Línu og börnunum varð því sorglega stutt eða eins 9 ár.

Það var þung raun fyrir 27 ára gamla konu að standa ein uppi með sex börn, öll á unga aldri, húsakynni þröng, efni rýr, erfiðir tímar framundan, engar tryggingar né lífeyrissjóðir að leita til.

En skapstyrkur og dugnaður Línu, ásamt trú á kærleiksríkan Guð, hjálpaði henni til að ráða fram úr mesta vandanum. Með mikilli útsjónarsemi, sparnaði og agaðri stjórnun tókst henni aðdáunarvel að halda fjölskyldunni saman.

Hún tók t.d. um stund við starfi eiginmanns síns, sem hafði verið lifrarbræðslumaður hjá Einari Guðfinnssyni. Þannig barðist hún fyrir framfærslu fjölskyldu sinnar með margvíslegum hætti.

Saga hennar er í raun og veru saga fjölmargra sem á þessum árum bjuggu við erfið lífskjör, lítil efni og áttu fullt í fangi með að hafa ofan í sig og á.

Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson, d. 1996, og áttu þau sama fjögur börn. En Lína mun hafa verið sú kona á Íslandi sem eignaðist hvað mestan fjölda afkomenda, hátt á þriðja hundraðið.

Til að lýsa innsæi og þroska Línu við uppeldi barna sinna langar mig að vitna til frásagnar Óskars, sonar hennar, sem gæti heitið: Vertu trúr yfir litlu, þá mun þér farnast vel.

“Á kreppuárunum var geitin mjólkurkýr fátæka mannsins í Bolungarvík, enda lítið um mjólk og enn minna um peninga, en Lína átti eina. Þegar búið var að mjólka geitina dagslega þurfti að koma henni til fóðurs í Traðarhlíð. Óskar hafði þann starfa á höndum. Það kostaði svolitla rúgbrauðsskorpu að koma geitinni af stað. Áður en farið var af stað fékk hún helminginn, en hinn á áfangastað. Einn daginn var engin brauðskorpa til, en aftur á móti til ilmandi og rjúkandi rúgbrauðssneið. Geitin fékk strax helminginn af sneiðinni og var rölt af stað, svo freistandi var lyktin að Óskar og Jóhann bróðir hans stóðust ekki mátið, nörtuðu í rúgbrauðssneiðina góðu á leiðinni í haga, og svo fór að þegar komið var á áfangastað var ekkert brauð eftir handa geitinni. Geitin heimtaði sinn síðari helming og þrátt fyrir öll brögð gáfust þeir bræður upp og héldu heim á leið með geitina á hælunum. Ekki varð hjá því komist að greina frá málavöxtum. Lína móðir þeirra greip í handlegg Óskars og segir við hann: “Geitin átti brauðið, og þér var trúað fyrir því. Láttu það aldrei koma fyrir þig aftur að bregðast þeim sem treysta þér fyrir einhverju, jafnvel þótt það sé aðeins lítill brauðmoli.” Síðan fá þeir aðra brauðsneið og ætla af stað að nýju, en þá gerist það að geitin stingur höfðinu inn í anddyrið og hrifsar eldsnöggt brauðið úr hendi Óskars. Ekki þurfti að hugsa sér að fara með hana aftur í haga, hún var búin að fá brauðið sitt og var nú komið upp nýtt vandamál. Geitin mundi verða að flækjast um allt þorpið og þurfti að hafa strangar gætur á henni allan daginn svo hún færi ekki í garða nágrannanna. Það var því verkefni þeirra bræðra það sem eftir var dags að passa geitina. Merkilegt hvað ein rúgbrauðssneið ­ ekki einu sinni með margaríni ofan á ­ getur orsakað mikil vandræði.”

Þessi saga er miklu lengri, en lýsir hugarfari og þroska Línu við að meta trúnað og samviskusemi öðru fremur.

Lína Dalrós var um margt óvenjuleg kona. Hún var, eins og áður hefur komið fram, mikill forkur til allrar vinnu, bæði utan sem innan heimilisins. Mikla unun hafði hún af hannyrðum og garðyrkju og var mjög félagslynd. Hún sótti kirkju vel og reglulega og hafði gaman af dansi, söng og tónlist.

Sá sem þetta ritar hefur áður sagt frá því að einn mesti lífsháski sem hann hefur komist í var að dansa fjörugan polka við Línu, en hún var létt á fæti og hafði mikið þol. Nú orðið ­ vegna aldurs ­ lætur hann sér nægja að dansa vangadans við Sigríði Guðjónsdóttur, sem nú syrgir látna vinkonu sína.

Dauðsfall eldri manneskju tökum við öðruvísi en þegar ung fellur frá. Þó er það svo að minningarnar spyrja ekki um aldur. Aðstandendur rifja upp liðna atburði frá ýmsum aldursskeiðum, sumir tengjast gleði, aðrir sorg og margs er að minnast og þakka fyrir.

Með Línu Dalrós er enn ein “rósin” fölnuð og fallin. Blómagarður okkar Bolvíkinga er fátækari nú en áður.

Samferðamenn hennar um langan aldur þakka henni samfylgdina og minnast hennar sem dugmikillar konu, konu sem sigraðist á miklum erfiðleikum, tókst að koma börnum sínum til mennta þrátt fyrir erfið lífskjör. Hún var kona sem gleymdi sjálfri sér og var fremur “þjónn” vina og vandamanna en “húsbóndi”. Minning hennar mun lengi lifa meðal Bolvíkinga og annarra þeirra er áttu því láni að fagna að kynnast verðleikum hennar, hæfileikum og góðvild.

Ég vil sem bæjarstjóri þakka henni framlagið til félagsstarfs í Bolungarvík og þau góðu áhrif sem hún hafði á samborgara sína alla tíð.

Við vitum að henni verður vel tekið á nýjum stað og biðjum henni blessunar þar. Við Lillý færum aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum góð kynni og vináttu við Línu Dalrós og fjölskyldu gegnum árin.

Ólafur Kristjánsson, Bolungarvík.

Auglýsingar