Færslusafn fyrir flokkinn: Minningargreinar

Sigurvin minningargrein

Sigurvin Jónsson fæddist í Bolungarvík 13. ágúst 1937. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík á jóladag, 25. desember 2012.

Foreldrar hans voru Lína Dalrós Gísladóttir fiskverkakona, f. 22.9. 1904 í Bolungarvík, d. 14.12. 1997, og Jón Ásgeir Jónsson sjómaður, f. 9.0. 1911 á Ísafirði, d. 1.10. 1996.

Lína Dalrós eignaðist tíu börn sem komust á legg, sex með fyrri eiginmanni sínum og fjögur með Jóni Ásgeiri og var Sigurvin næstyngstur þeirra systkina. Systkini Sigurvins eru í aldursröð: Guðmunda, Gísli, Guðbjörg, Óskar, Áslaug, Jóhann Líndal, Alda, Herbert, og Sveinn Viðar.

Sigurvin kvæntist Aðalheiði Halldóru Guðbjörnsdóttur 25.12. 1958. Þau slitu samvistum. Aðalheiður Halldóra og Sigurvin eignuðust sjö börn en þar af komust fimm á legg. Börn þeirra eru: 1) Oddný Lína, f. 1.5. 1958. Börn hennar eru: a) Oddur Andri, f. 12.12. 1983, b) Charlotta Rós, f. 16.11. 1990. 2) Guðbjörn Magnús, f. 8.6. 1959. Eiginkona hans er Þórunn Einarsdóttir, f. 9.4. 1959. Börn þeirra eru: a) Hjálmar Gunnar, f. 14.12. 1979, b) Aðalheiður Halldóra, f. 12.1. 1981. c) Guðbjörn Heiðar, f. 31.1. 1984, d) Anna Þórunn, f. 22.4. 1988. 3) Viktor Jón Sigurvinsson, f. 13.6. 1961. Sambýliskona hans er Ólína Berglind Sverrisdóttir, f. 18.8. 1963. Börn þeirra eru: a) Ágúst Sverrir, f. 19.12. 1980, d. 27.6. 1988, b) Kolbrún Eva, f. 14.12 1983, c) Sigurvin Sindri, f. 4.10. 1987, d) Sverrir Bergmann, f. 31.7. 1992, e) Brynjar Þór Viktorsson, f. 9.9. 1995. 4) Sigurvin Heiðar Sigurvinsson, f. 25.11. 1962. Eiginkona hans er Auður Auðunsdóttir, f. 5.12. 1964. Börn þeirra eru: a) Árný Eva, f. 18.1. 1985, b) tvíburasynir, f. 12.1. 1991, d. 12.1. 1991, c) Ragna Ýr, f. 1.6. 1992, d) Auðunn Orri, f. 24.1. 1996. 5) Kolbrún Eva, f. 30.3. 1964, d. 13.3. 1964. 6) drengur, f. 24.10. 1965, d. 29.10. 1965. 7) Jón Ásgeir Sigurvinsson, f. 21.12. 1970. Eiginkona hans er Elínborg Sturludóttir, f. 21.12. 1968. Börn þeirra eru: a) Hallgerður Kolbrún, f. 17.11. 1997, b) Sturla, f. 7.1. 2003, c) Kolbeinn Högni, f. 30.3. 2007.

Sigurvin og Aðalheiður hófu búskap á Ísafirði en fluttu fljótt til Bolungarvíkur. Þaðan lá leiðin í Reykholt, þar sem Sigurvin starfaði sem matsveinn í mötuneyti Héraðsskólans veturinn 1964-1965. Frá Reykholti flutti fjölskyldan síðan til Reykjavíkur. Hafði Sigurvin ýmis störf með höndum og var á stundum sjálfstæður atvinnurekandi. Þannig rak hann um tíma mötuneyti fyrir starfsfólk Álafossverksmiðjunnar og fiskverslun í Álfheimum í Reykjavík. Hann var matsveinn á ýmsum fraktskipum Eimskipafélagsins sem og á togurunum Vestmannaey og Drangey. Sigurvin var mötuneytisstjóri í mötuneyti SS og starfaði síðar í mötuneyti Hrafnistu í Reykjavík. Síðustu starfsárin starfaði Sigurvin sem eftirlitsmaður Hafrannsóknastofnunar á japönskum túnfiskveiðiskipum í íslenskri lögsögu.

Útför hans var gerð 3. janúar 2013, frá Áskirkju.

Það er komið bréf frá afa! hrópaði dóttir mín glaðlega þegar pósturinn hafði kastað þykkum bréfabunka inn um lúguna. Utan á eitt umslagið var nafn hennar handritað með skrifstöfum. Sonardóttir sendandans opnaði bréfið með mikilli eftirvæntingu. Litlu stúlkunni fannst sem tengslin við föðurfólkið væru ekki næg og hún vildi ráða bót á því. Hún var bara sjö ára og langaði til að komast í meira samband við afann í Reykjavík. Og hvað er þá til ráða? Maður stingur niður penna og skrifar honum bréf. Og þarna var svarið komið. Það var þakklátur maður sem svaraði sonardóttur sem hann hafði svo lítið haft af að segja fram að því og á milli þeirra Hallgerðar Kolbrúnar sem skírð var að síðara nafni eftir litlu dóttur hans sem dó svo ung, myndaðist nú vinaband sem varð til þess að farið var að rækta fjölskylduböndin á ný.

Ungur að árum þurfti tengdafaðir minn að fara að vinna fyrir sér, enda ólst hann upp í barnmargri fjölskyldu þar sem fátækt og skortur var oftast nærri. Móðir hans var annáluð dugnaðarkona sem varð tæplega þrítug ekkja með sex börn og það hefur ekki skort hugrekkið hjá seinni eiginmanni hennar Jóni Ásgeir Jónssyni að hefja rúmlega tvítugur sambúð með þessari barnmörgu ekkju. Má það teljast mikið afrek hjá þeim að hafa komið upp þessum stóra barnahópi í því fátæktarbasli sem var í Bolungarvík á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Sigurvin fór á síld strax eftir fermingu og þar með var lífsbaráttan hafin fyrir alvöru. Þegar ég heyri sjómannalögin frá sjötta áratugnum finnst mér alltaf að verið sé að syngja um líf tengdaföður míns!

Það var mikil rómantík í kringum sjómannslífið á þessum árum og sjómenn voru hetjur hafsins. Það vafðist heldur ekki fyrir Sigurvini að næla í eina af fegurstu blómarósunum sem gengu um strætin á Ísafirði um miðjan sjötta áratuginn. Dóra var gullfalleg og af myndum að dæma hafa þau verið glæsilegt par. Á jóladag 1958 gengu þau í hjónaband og við sama tækifæri var frumburður þeirra skírður. Síðan fæddust börnin eitt af öðru. Sigurvin og Dóra misstu tvö nýfædd börn á tæplega tveimur árum. Án efa hefur svo mikill missir markað djúp spor í sálarlíf þeirra. Sigurvin bjó yfir persónutöfrum og átti auðvelt með að kynnast fólki. Honum þótti gaman að skemmta sér og hafa fólk í kringum sig. En smám saman hætti gleðskapurinn að verða dagamunur og varð að kvöð sem varð honum fjötur um fót.

Ævi tengdaföður míns getur verið uppspretta visku. Hann gerði mörg mistök en hann sýndi líka dugnað og nægjusemi sem er eftirbreytniverð. Kannski er mesti lærdómurinn sá að hann gafst aldrei upp þótt á móti blési. Ef til vill sagði þar til sín vestfirski uppruninn, þar sem hugrekki og þrautseigja var lykillinn að því að lifa af. Þegar jóladagur rann upp og kristnir menn fögnuðu fæðingu frelsarans, kvaddi Sigurvin þennan heim. Það finnst mér táknrænt og minnir mig á að bæði í lífi og dauða er hægt að finna fegurð og samræmi.

Elínborg Sturludóttir

 

Áslaug Jóhannsdóttir minningargrein

Áslaug Jóna Ólsen Jóhannsdóttir fæddist í Bolungarvík 29. september 1929. Hún lést á heimili sínu sunnudaginn 29. mars 2009.

Foreldrar hennar voru Lína Dalrós Gísladóttir, f. í Bolungarvík 22.9. 1904, d. 14.12. 1997 og Jóhann Sigurðsson, f. 5.8. 1891, d. 27.8. 1932. Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson, f. 9.7. 1911, d. 1.10. 1996. Systkini Áslaugar eru; Guðmunda, f. 20.3. 1922, d. 12.3. 2005, Gísli, f. 29.8. 1923, d. 9.9. 1989, Guðbjörg Kristín, f. 3.12. 1925, d. 3.6. 1926, Guðbjörg, f. 29.4. 1927, Guðmundur Óskar, f. 25.5. 1928, Jóhann Líndal, f. 25.11. 1930, Alda, f. 9.3. 1935, Herbert, f. 29.8. 1936, d. 5.11. 1985, Sigurvin, f. 13.8. 1937, og Sveinn Viðar, f. 5.12. 1939.

Áslaug giftist 24. desember 1949 Jóhannesi Guðjónssyni sölumanni og iðnrekanda, f. 21.7. 1918, d. 28.6. 1985. Foreldrar hans voru Guðjón Bjarnason, f. 12.1. 1885, d. 10.5. 1942 og Ólafía Margrét Helga Arnórsdóttir, f. 4.6. 1896, d. 28.8. 1923.

Börn Áslaugar og Jóhannesar eru:

1) Gréta Björk, f. 14.5. 1949, maki Þórhallur Frímannsson, f. 23.10. 1942, börn þeirra Margrét, f. 16.4. 1975, maki Adrian Long, f. 21.5. 1975, og Jóhannes, f. 20.4. 1979, í sambúð með Hönnu Björg Konráðsdóttur, f. 20.5. 1983. Gréta á tvo stjúpsyni, Frímann Þór og Viðar Þórhallssyni.

2) Edda Ösp, f. 7.4. 1951, börn hennar Einar Björnsson, f. 17.9. 1967, í sambúð með Halldóru Eldon Sigurðardóttur, f. 20.8. 1970, og Áslaug Björk, f. 28.3. 1972, maki Ragnar Haraldsson, f. 26.6. 1970.

3) Guðjón Reynir, f. 9.8. 1952, maki Gyða Halldórsdóttir, f. 22.8. 1948. Börn Guðjóns og Ásdísar Jónsdóttur, f. 2.9. 1952 eru Jón Rúnar, f. 12.1. 1976, maki Aviaq Geisler, f. 14.4. 1980, Agnes, f. 13.6. 1979, í sambúð með Gunnari Sigurðssyni, f. 23.2. 1973, og Óskar Ingi, f. 17.7. 1983, í sambúð með Völu Jónsdóttur, f. 14.11. 1983. Guðjón á tvær stjúpdætur, Erlu Dögg og Láru Kristínu Ragnarsdætur.

4) Kristján, f. 4.10. 1957, maki Eyrún Jónsdóttir, f. 27.4. 1960. Börn þeirra Ásbjörg Elín, f. 3.12. 1979, Signý Rut, f. 9.10. 1995, Sigurbjörg María, f. 6.11. 1998, og Jóhannes Karl, f. 6.11. 1998.

5) Drengur Jóhannesson, f. 5.9. 1960, d. 6.9. 1960.

6) Helga, f. 23.7. 1965, maki Örn Jónasson, f. 16.2. 1962. Börn þeirra Franz Jónas Arnar, f. 11.7. 1993, og María Ísabella, f. 13.4. 1996. Barnabarnabörnin eru 10.

Áslaug ólst upp í Bolungarvík, hún lauk námi frá Húsmæðraskólanum á Ísafirði árið 1951. Fyrstu búskaparár sín bjuggu Áslaug og Jóhannes í Bolungarvík en árið 1951 fluttu þau til Reykjavíkur. Þau byggðu sér hús að Hlégerði 11 í Kópavogi árið 1958 og bjó Áslaug þar í nær 50 ár uns hún flutti að Kópavogsbraut 1A í júlí 2008. Meðfram heimilisstörfum vann Áslaug við ýmis þjónustustörf uns þau hjónin keyptu Regnfatagerðina Vopna árið 1972 og ráku til 1985 er Jóhannes lést.

Eftir það starfaði hún á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í 14 ár eða til 70 ára aldurs. Áslaug var mikil hannyrðakona og lætur eftir sig mörg fagurlega gerð verk, var einnig garðyrkjukona og garðurinn hennar í Hlégerðinu var hennar líf og yndi og ber merki um alúð og umhyggju. Á frumbýlisárum þeirra hjóna í Kópavogi tók Áslaug virkan þátt í bæjarmálum fyrir Alþýðuflokkinn og sat um tíma í nefndum bæjarins fyrir flokkinn. Útför Áslaugar fór fram frá Kópavogskirkju þ. 3. apríl 2009.

Jarðsett var í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

 

 

Gísli Jóhannsson minningargrein

Minningargrein úr Mbl.

Minning: Gísli Jóhannsson garðyrkjumaður Fæddur 29. ágúst 1923 Dáinn 9. september 1989

Gísli Jóhannsson, Friðrikshúsi, Hjalteyri, andaðist í Borgarspítalanum í Reykjavík þ. 9. septembersl. eftir langa og erfiða baráttu. Hann verður jarðsettur að Möðruvöllum í Hörgárdal í dag, en kveðjuathöfn fór fram í Reykjavík 15. september.

Gísli var fæddur í Bolungarvík, næstelstur 6 barna Línu Dalrósar Gísladóttur og Jóhanns Sigurðssonar, sem upp komust. Sumarið 1932, þegar Gísli var tæplega 9 ára, an daðist faðir hans. Það sumar hafði Gísli ráðist til snúninga að Hóli í Bolungarvík og varð úr að hann ílentist þar til fermingaraldurs. Þá réðst hann sem vinnumaður í Æðey og var þar til tvítugsaldurs, en nám stundaði hann við Héraðsskólann í Reykjanesi. Síðan lá leiðin í Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi, og útskrifaðist hann þaðan árið 1946.

Þar kynntist hann eftirlifandi konu sinni Gyðu Antoníusardóttur. Þau giftust árið 1947, stofnuðu heimili í Hveragerði og störfuðu þar við garðyrkju. Þau fluttu að Hraunprýði í Nesjavallalandi, endurnýjuðu garðyrkjustöðina þar, og starfræktu hana í tæpan áratug. Þarnæst bjuggu þau í Þorlákshöfn og stundaði Gísli þar sjósókn. Árið 1968 festi hann kaup á landi vestan Ölfusár, og byggði þar frá grunni Gróðrarstöðina Ártún, ásamt íbúðarhúsi. Árið 1980 lét hann gamlan draum sinn rætast, að búa við sjóog róa til fiskjar á eigin skipi. Hann seldi stöðina í Ártúni, keyptir gamalt hús, Friðrikshús á Hjalteyri, og nýjan bát. Þrátt fyrir langvarandi heilsuleysi tókst þeim að endurbyggja húsið og gera það að mikilli staðarprýði.

Börn Gyðu og Gísla eru: Áslaug, gift Matthíasi Þorbergssyni, Akureyri, Sigurður Bjarni, kvæntur Guðnýju Ingimundardóttur, Djúpavogi, Jónína, gift Hjalta Ásmundssyni, Selfossi, Hjörtur, kvæntur Ernu Erlingsdóttur, Hrísey, og Elín, gift Júlíusi Þór Sveinssyni, Flúðum. Fyrir hjónaband eignaðist Gísli dóttur, Jóhönnu, sem alin var uppí Æðey. Maður hennar er Garðar Hannesson í Hafnarfirði.

Gyða missti fyrri mann sinn frá tveimur ungum börnum. Þau eru Helga gift Kjartani Pálssyni, Vaðnesi, Grímsnesi og Helgi kvæntur Auði Gústafsdóttur, Höfn, Hornafirði.

Eins og fyrr segir eignaðist Gísli 6 börn. Barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin 9. Systkini Gísla eru: Guðmunda, gift Kristjáni Pálssyni, Ísafirði, Guðbjörg, gift Kristni Finnbogasyni, Garðabæ, Óskar, kvæntur Elsu Friðriksdóttur, Reykjavík, Áslaug, gift Jóhannesi Guðjónssyni, Kópavogi, en hann er látinn, Jóhann Líndal, kvæntur Elsu Gestsdóttur, Njarðvík.

Með seinni manni sínum, Jóni Ásgeiri Jónssyni, eignaðist Lína fjögur börn, en þau eru: Alda gift Ingiberg Jensen, Reykjavík, Herbert, hann er látinn, var kvæntur Steinunni Felixdóttur, Reykjavík, Sigurvin kvæntur Halldóru Guðbjörnsdóttur, Reykjavík og Sveinn Viðar kvæntur Auði Vésteinsdóttur, Reykjavík.

Þegar Gyða og Gísli stofnuðu heimili sitt í Hveragerði fundum við Jóhann fljótt, hve gott var að heimsækja stóra bróður og konu hans, og eru helgarferðir okkar austur, meðal björtustu minninga unglingsáranna. Alla tíð hefur heimili þeirra verið rómað fyrir einstaka gestrisni, myndarskap og velvilja.

Þau hjónin störfuðu mikið saman og voru samhent um að láta öllu og öllum líða vel í nálægð sinni, hvort sem var fólk eða gróður, enda farnaðist þeim vel við garðyrkjuna og börn þeirra öll mesta efnisfólk.

Jafnvel fulltíða fólk, á í dag bágt með að setja sig í spor 8 ára drengs, sem verður að vinna fyrir sér hjá vandalausum, og um fermingu, aukþess að fara í burtu þangað sem hann átti engan að, kynnast af eigin reynslu þeirri hlið gamaldags „höfðingjaseturs“, sem að vinnu fólkinu sneri. Það var því meira en lítið afrek að rífa sig lausan og komast suður á Garðyrkjuskólann.

Þrátt fyrir erfiða æsku var Gísli alltaf léttur í skapi, ljúfur og vildi öllum vel. Hann bjó yfir einstakri frásagnarlist, og eru margar sögur hans úr daglega lífinu hreinustu perlur, því hann gat alltaf séð eitthvað jákvætt, lærdómsríkt og spaugilegt út úr því sem í fljótubragði virtust hversdagslegir at burðir.

Nú þegar við systkinin kveðjum Gísla minnumst við einnig Herberts, sem lést fyrir tæpum fjórumárum og átti sama afmælisdag og Gísli.

Svo vill til, að í dag er móðir okkar 85 ára og enn sem fyrr er okkur huggun af að hafa orð hennar í huga, en við dánarbeð Gísla varð henni að orði. „Mér hefur verið mikið gefið, – það væri vanþakklæti af minni hálfu að taka þvíekki möglunarlaust þegar eitthvaðaf því er aftur tekið, en minningin um góðan dreng lifir áfram hjá okkur.“

Gyðu vil ég færa innilegt þakklæti fyrir allt það sem hún lagði á sig til að geta verið hjá honum og hjúkrað í hans erfiðu baráttu.

Ég votta henni, börnum þeirra og fjölskyldum, okkar innilegustu samúð.

Fyrir hönd systkinanna,

Óskar Jóhannsson.

Minningargrein 20.12.1997, höf:Hildur Einarsdóttir og Benedikt Bjarnason.

Það verður ekki héraðsbrestur, né veldur straumhvörfum í lífi þjóðar, þó að ellimóð kona ljúki jarðvist sinni, sem er eðlilegur gangur lífsins.

En við slík vegamót leita fram í hugann minningar og myndir frá liðnum tíma.

Í dag kveðjum við Bolvíkingar hinztu kveðju mikilhæfa mannkostakonu, af alþýðufólki komna, Línu Dalrós Gísladóttur.

Hún var mikil ræktunarmanneskja í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Lína var einlæg í trúnni og trúrækin. Treysti á handleiðslu Guðs. Naut þess að sækja kirkju sína, Hólskirkju. Í þeim helgidómi leið henni vel.

Hún hafði yndi af því að vinna í garðinum sínum, og hlúa að blómum og runnum þar, og síðast í sumar naut hún þess að komast í snertingu við moldina.

Líf hennar var löngum mótað af miklu annríki, umhyggju fyrir börnunum sínum mörgu og afkomendum þeirra, og mun nú eiga flesta núlifandi afkomendur í landinu. Börnin reyndust henni líka einstaklega vel, ræktarleg í bezta máta.

Hún var góðum gáfum gædd, stálminnug, og hélt andlegri reisn sinni fram til síðustu stundar. Kappsöm í störfum var hún og ósérhlífin, kvik í hreyfingum og létt á fæti, þótti gaman að dansa, skyldurækin og samvizkusöm, heil og hreinskiptin.

Á langri ævi vann hún byggðarlaginu mikið gagn með vinnusemi sinni og dugnaði. Hún var virkur þátttakandi í félagsmálum, m.a. var hún heiðursfélagi í kvenfélaginu Brautinni.

Lína naut almennra vinsælda, og setti af þeim sökum mjög svipmót sitt á umhverfið og samtíð sína í Víkinni, sem henni var svo kær.

Við áttum því láni að fagna að eiga hana að góðum nágranna í áratugi, og fyrir það erum við þakklát henni. Okkur þykir það því mjög miður að geta ekki komið því við að fylgja henni síðasta spölinn.

Hún Lína kvaddi þennan heim í svartasta skammdeginu. En innan skamms hefst gangan mót hækkandi sól á ný, sigri ljóssins yfir myrkrinu.

Megi það ljós lýsa henni fram á veginn til æðri leiða. Börnum og nánustu ástvinum hennar vottum við einlæga hluttekningu við þessi þáttaskil.

Hildur Einarsdóttir, Benedikt Bjarnason.

Minningargrein í Mbl 20.12.’97,höf. Ólafur Kristjánsson, Bolungarvík.

Lína Dalrós GísladóttirLína Dalrós Gísladóttir á Bolungarvík er látin. Hún hafði átt við vanheilsu að stríða síðustu mánuði auk þess að verða fyrir byltu og lærbrotna tveimur dögum fyrir andlátið.

Fráfall hennar kom því ekki á óvart, aldurinn orðinn hár ­ 93 ár ­ og hún farin að kröftum eftir langa og erfiða en farsæla ævidaga.

Ung að árum giftist hún Jóhanni Sigurðssyni frá Vonarholti, Strandasýslu, og átti með honum sjö börn, en þau misstu eitt skömmu eftir fæðingu. Jóhann lést um aldur fram eftir erfiða sjúkdómslegu. Samvera hans með Línu og börnunum varð því sorglega stutt eða eins 9 ár.

Það var þung raun fyrir 27 ára gamla konu að standa ein uppi með sex börn, öll á unga aldri, húsakynni þröng, efni rýr, erfiðir tímar framundan, engar tryggingar né lífeyrissjóðir að leita til.

En skapstyrkur og dugnaður Línu, ásamt trú á kærleiksríkan Guð, hjálpaði henni til að ráða fram úr mesta vandanum. Með mikilli útsjónarsemi, sparnaði og agaðri stjórnun tókst henni aðdáunarvel að halda fjölskyldunni saman.

Hún tók t.d. um stund við starfi eiginmanns síns, sem hafði verið lifrarbræðslumaður hjá Einari Guðfinnssyni. Þannig barðist hún fyrir framfærslu fjölskyldu sinnar með margvíslegum hætti.

Saga hennar er í raun og veru saga fjölmargra sem á þessum árum bjuggu við erfið lífskjör, lítil efni og áttu fullt í fangi með að hafa ofan í sig og á.

Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson, d. 1996, og áttu þau sama fjögur börn. En Lína mun hafa verið sú kona á Íslandi sem eignaðist hvað mestan fjölda afkomenda, hátt á þriðja hundraðið.

Til að lýsa innsæi og þroska Línu við uppeldi barna sinna langar mig að vitna til frásagnar Óskars, sonar hennar, sem gæti heitið: Vertu trúr yfir litlu, þá mun þér farnast vel.

“Á kreppuárunum var geitin mjólkurkýr fátæka mannsins í Bolungarvík, enda lítið um mjólk og enn minna um peninga, en Lína átti eina. Þegar búið var að mjólka geitina dagslega þurfti að koma henni til fóðurs í Traðarhlíð. Óskar hafði þann starfa á höndum. Það kostaði svolitla rúgbrauðsskorpu að koma geitinni af stað. Áður en farið var af stað fékk hún helminginn, en hinn á áfangastað. Einn daginn var engin brauðskorpa til, en aftur á móti til ilmandi og rjúkandi rúgbrauðssneið. Geitin fékk strax helminginn af sneiðinni og var rölt af stað, svo freistandi var lyktin að Óskar og Jóhann bróðir hans stóðust ekki mátið, nörtuðu í rúgbrauðssneiðina góðu á leiðinni í haga, og svo fór að þegar komið var á áfangastað var ekkert brauð eftir handa geitinni. Geitin heimtaði sinn síðari helming og þrátt fyrir öll brögð gáfust þeir bræður upp og héldu heim á leið með geitina á hælunum. Ekki varð hjá því komist að greina frá málavöxtum. Lína móðir þeirra greip í handlegg Óskars og segir við hann: “Geitin átti brauðið, og þér var trúað fyrir því. Láttu það aldrei koma fyrir þig aftur að bregðast þeim sem treysta þér fyrir einhverju, jafnvel þótt það sé aðeins lítill brauðmoli.” Síðan fá þeir aðra brauðsneið og ætla af stað að nýju, en þá gerist það að geitin stingur höfðinu inn í anddyrið og hrifsar eldsnöggt brauðið úr hendi Óskars. Ekki þurfti að hugsa sér að fara með hana aftur í haga, hún var búin að fá brauðið sitt og var nú komið upp nýtt vandamál. Geitin mundi verða að flækjast um allt þorpið og þurfti að hafa strangar gætur á henni allan daginn svo hún færi ekki í garða nágrannanna. Það var því verkefni þeirra bræðra það sem eftir var dags að passa geitina. Merkilegt hvað ein rúgbrauðssneið ­ ekki einu sinni með margaríni ofan á ­ getur orsakað mikil vandræði.”

Þessi saga er miklu lengri, en lýsir hugarfari og þroska Línu við að meta trúnað og samviskusemi öðru fremur.

Lína Dalrós var um margt óvenjuleg kona. Hún var, eins og áður hefur komið fram, mikill forkur til allrar vinnu, bæði utan sem innan heimilisins. Mikla unun hafði hún af hannyrðum og garðyrkju og var mjög félagslynd. Hún sótti kirkju vel og reglulega og hafði gaman af dansi, söng og tónlist.

Sá sem þetta ritar hefur áður sagt frá því að einn mesti lífsháski sem hann hefur komist í var að dansa fjörugan polka við Línu, en hún var létt á fæti og hafði mikið þol. Nú orðið ­ vegna aldurs ­ lætur hann sér nægja að dansa vangadans við Sigríði Guðjónsdóttur, sem nú syrgir látna vinkonu sína.

Dauðsfall eldri manneskju tökum við öðruvísi en þegar ung fellur frá. Þó er það svo að minningarnar spyrja ekki um aldur. Aðstandendur rifja upp liðna atburði frá ýmsum aldursskeiðum, sumir tengjast gleði, aðrir sorg og margs er að minnast og þakka fyrir.

Með Línu Dalrós er enn ein “rósin” fölnuð og fallin. Blómagarður okkar Bolvíkinga er fátækari nú en áður.

Samferðamenn hennar um langan aldur þakka henni samfylgdina og minnast hennar sem dugmikillar konu, konu sem sigraðist á miklum erfiðleikum, tókst að koma börnum sínum til mennta þrátt fyrir erfið lífskjör. Hún var kona sem gleymdi sjálfri sér og var fremur “þjónn” vina og vandamanna en “húsbóndi”. Minning hennar mun lengi lifa meðal Bolvíkinga og annarra þeirra er áttu því láni að fagna að kynnast verðleikum hennar, hæfileikum og góðvild.

Ég vil sem bæjarstjóri þakka henni framlagið til félagsstarfs í Bolungarvík og þau góðu áhrif sem hún hafði á samborgara sína alla tíð.

Við vitum að henni verður vel tekið á nýjum stað og biðjum henni blessunar þar. Við Lillý færum aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum góð kynni og vináttu við Línu Dalrós og fjölskyldu gegnum árin.

Ólafur Kristjánsson, Bolungarvík.