Færslusafn fyrir flokkinn: Blaðagreinar

Minningargjöf um Gísla Jónsson föður Línu

Víkarinn: Sjá frétt frá 19.júní 2013

Listakonan Anny Hjartardóttir hefur gefið Bolungarvíkurkaupstað eitt verka sinna sem er útskorið verk af Ósvör. Anny er dóttir Hjartar Gíslasonar sem var bróðir Línu Dalrósar en verkið gefur Anny til minningar um afa sinn, Gísla Jónsson „Skálda“. Myndin er einkar fagur djúpskurður af verstöðinni Ósvör og er verkið skorið í maghony við.

Það var Sigurður Gíslason á Hóli og Guðbjörg Jóhannsdóttir (dóttir Línu Dalrósar), fyrir hönd Annyar Hjartardóttur, sem færðu Elíasi Jónatanssyni bæjarstjóra gjöfinu og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

osvor-anny2

Anny Hjartardóttir hefur gefið Bolungarvíkurkaupstað eitt verka sinna sem er útskorið verk af Ósvör.(Ljósmynd Vikari.is)

osvor-anny

Það var Sigurður Gíslason á Hóli og Guðbjörg Jóhannsdóttir (dóttir Línu Dalrósar), fyrir hönd Annyar Hjartardóttur, sem færðu Elíasi Jónatanssyni bæjarstjóra gjöfinu og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. (Ljósmynd Vikari.is)

 

 

Sigurður Magnússon

Frá Agnesi Jóhannsdóttur:
Fyrir u.þb. 20 árum var mér gefinn Strandapósturinn 1. árg. 1967, þar sem þessi grein er í um langafa minn þ.e. faðir Jóhanns Sigurðssonar sem var tengdapabbi Línu Dalrósar. Mig langaði að deila þessu með ykkur frændfóki mínu. Ég hafði gaman af að fá þetta í mínar hendur á sínum tíma. Var búin að vera að leita af þessu og svo allt í einu rak ég augun í þetta í bókahillunni hjá mér. Skil ekki hvernig þetta hefur farið fram hjá mér.:

Sigurður Magnússon

ÞANNIG MUNA MENN SIGURÐ MAGNÚSSON

 Hann Siggi Magnússon er kominn, flaug manna á milli um bæinn. Það var eins og vindkviða í mollu hversdagsleikans.

–“ Skyldi hann fara í leiki, syngja og dansa eins og í fyrra, er hann kom hér? Það var svo gaman. Hann fór í vefaraleik, mús og kött. Hann dansaði Óla skans, Jeg har været í London, Liverpool og Hull og margt fleira.

Svo kvað hann, meðal annars um karlinn sem hristi rauðan hausinn “.

Þetta sögðu unglingarnir og bættu við:“Nú má ekki gefa Lappa og Pílu neinn mat í kvöld, því Siggi ætlar að hreinsa þau á morgun.”

Þegar læknar og vísindamenn fundu orsakir sullaveikinnar á síðari hluta nítjándu aldarinnar, voru gefin út lög og strangar reglur um útrýmingu hennar, sem framkvæmd var á þann hátt að eyða bandormum, er höfðust við og tímguðust í meltingarfærum hundsins. Var því gjört að skyldu að fram færi árlega hreinsun þeirra. Urðu hluteigandi sveita- og sýsluyfirvöld að sjá til um það. Þetta verk var leiðinlegt , kaldsamt og óþrifalegt, voru því fáir sem fengust til að vinna það, en til þess að starfið næði tilgangi sínum varð að gæta þess vel að fylgja settum reglum og krafðist það því samviskusemi, trúmennsku og vandvirkni.

Þennan starfa hafði Sigurður á hendi um margra ára bil í innanverðri Strandasýslu og um Dali. – Hvernig hann leysti þetta af hendi, um það þarf ekki að fjölyrða. Samviskusemi og trúmennska var sterkur þáttur í hverju hans starfi.

Á þessum ferðalögum kynntist hann mörgum og persónuleiki hans gerði hann hvarvetna velkominn gest. Hann var sá, er kom langt að, gat blandað geði við fólk og hafði frá mörgu að segja. Koma hans setti svip sinn á heimilin – hans glaða leiklund – þótt ekki væri nema ein til tvær kvöldstundir.

Sigurður gekk oft undir nafninu Siggi hundalæknir. Það lét hann sig litlu skipta. Honum var aðalatriðið að starfið bæri tilætlaðan árangur, enda hinir hættulegu sjúkdómar, höfuðsótt í sauðfé og sullaveiki í mönnum, horfnir á tiltölulega fáum árum.

Á ferðum sínum hafði hann ætíð fyrirferðamikla byrði, föt sín, þar sem langdvöl að heiman var að jafnaði. Þá hafði hann oft með sér smíðatól – “áhöldin “ – því oft dvaldi hann á heimilum um tíma, við “að dikta að “ og smíða búsáhöld, bala, skjólur og kirnur, því margs þurftu búin við í viðhaldi og nýsmíði heimilisgagna.

Þegar Sigurður svo bætti við sig pinklum og pjönkum, vina og kunningja, var byrði hans oft býsna þung. Raddmaður var Sigurður ágætur, en um nám í þeirri mennt var ekki að ræða.

Hann skapaði sjálfur sínar stemmur og kvæðalög og skemmti hlustendum. Við, sem höfðum notið margra ánægjustunda með honum, álítum það verðskuldaðan heiður Sigurði til handa, er tónskáldið Jón Leifs náði á segulband rímnastemmu hans. – – –

—–

—–

– – – Sigurður var á ferð frá Hólmavík heim í sveitina sína, Tungusveit, labbandi að vanda með byrði í bak og fyrir. Hann kom að Hrófá og hitti Þorgeir bónda þar, er býður honum inn. Sigurður kvaðst eitthvað lasinn og linjulegur, ef hann mætti leggjast upp í rúm, sem þegar var veitt og honum hjálpað úr ytri klæðum, engra þrauta kvaðst hann kenna, en eftir fáar mínútur var hann fallinn í hinstu værð. –

Hin sérstæðu persónueinkenni Sigurðar voru svo skýr og sterk, að hann setti svip á samtíðina innan síns byggðarlags. – Því fannst okkur, sem af honum höfðu nokkur kynni, sem einn af sérstæðustu dröngum á Ströndum hefði fallið í hafið:

 

Sigurður Magnússon

Smagn2 Smagn3

Minning Mumma Þórs heiðruð

Guðmundur Þór Kristjánsson

Guðmundur Þór Kristjánsson

Mikið var um dýrðir í Menntaskólanum á Ísafirði í þegar nýsköpunarsmiðjan Fab Lab var formlega opnuð. Smiðjan mun bera nafnið Guðmundarsmiðja, eftir Guðmundi Þór Kristjánssyni vélstjóra og vélstjórnarkennara við Menntaskólann á Ísafirði. Guðmundur var frumkvöðull að stofnun Fab Lab smiðju á Ísafirði, en hann lést árið 2010 langt fyrir aldur fram.

Sjá grein

http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=179329

BB.is:Velheppnuð Vestfjarðareisa Bubba Morthens og Heru (2002)

Hér er grein um Heru Hjartardóttur í BB.

Lína Dalrós var langamma hennar.

Fremst fyrir miðju er Hera ásamt ömmu sinni, Guðbjörgu Jóhannsdóttur, en hún er dóttir Línu Dalrósar heitinnar Gísladóttur í Bolungarvík. Einnig eru á myndinni Linda R. Kristjónsdóttir, hálfsystir Hjartar, föður Heru (nr. 2 frá vinstri) og maður hennar, Sigurður Gunnarsson (lengst til hægri), sonur og tengdadóttir Lindu og Sigurðar, þau Pétur Sigurðsson og Margrét Ósk Jónasdóttir, og loks Sigurður Gíslason á Hóli í Bolungarvík.

Aldarminning Línu grein skrifuð 2004

Í SEPTEMBER í fyrra var nefnd barnabarna Línu sett á laggirnar til að halda ættar og niðjamót í sumar. Ekki komu margir staðir til greina sem gætu með góðu móti tekið á móti svo stórum hóp. Ákveðið var að semja við Edduhótelið að Laugum í Sælingsdal, um helgina 13. til 15. ágúst.

Gerð var heimasíða með upplýsingum um ættarmótið. Þessi heimasíða verður í notkun áfram. Margvíslegt hæfileikafólk finnst í svo fjölmennri ætt, og var m.a. stofnuð hljómsveit sem hélt nokkrar æfingar í vetur, og búseta á Ísafirði kom ekki í veg fyrir að menn mættu á æfingar í Reykjavík. Nefndin yfirfór og uppfærði niðjatalið ásamt kennitölum þeirra og tengdafólksins, og gaf út í bók, þar sem síðasti afkomandinn bættist við hinn 7. ágúst sl. (Og einn bættist við 28. ágúst.) Á föstudagskvöldi, í blíðskaparveðri, kom hver bílfarmurinn eftir annan af brosandi fólki á stæðið utan við hótelið að Laugum, og allir föðmuðust og kysstust, og alltaf bættist við. Útlendingar sem voru að bisa við hjólin sín utan við hótelið, urðu undrandi á svipinn, og skildu ekkert í þessu fólki. Allir fengu þau herbergi sem um var beðið, og allt gekk einstaklega vel og ljúflega.

 

Tjaldstæðið fylltist af tjöldum, tjaldvögnum og húsbílum, og kveikt var í stóru grilli og mörgum minni. Afhent voru barmmerki með tíu litum, sínum lit fyrir hvern hóp. Formleg setning og brekkusöngur fór svo fram við tjald stæðið, og einlægur fögnuður og vinátta ríkti hvarvetna. Á laugardag kl. 8 til 10 voru spjöld með fjölskyldumyndum hengd upp í íþróttahúsinu. Kl. 11 fór fram helgistund í brekkunni við tjaldstæðin. Séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Grundarfirði, sem er tengdadóttir eins af sonum Línu Dalrósar, minntist ættmóðurinnar, látinna manna hennar og ástvina úr fjölskyldunni. Öllum kom saman um að þetta var einstaklega hugljúf og falleg athöfn.

 

Eftir hádegið fór fram íþróttakeppni. Tíu lið tóku þátt í keppninni, og var keppt í ýmsum skrautlegum og fjölbreyttum greinum. Mikill áhugi var á keppninni, sem sjá má af því að einn tveggja ára vildi ólmur keppa í pokahlaupinu, og stóð sig vel, og þegar halla tók á eitt liðið í reiptoginu, bættist ein tæplega 75 ára amman í hópinn og bjargaði málinu. Allir höfðu mikla ánægju af þessari spennandi keppni, og ekki dró úr ánægjunni, þegar dómnefndin tilkynnti úrslitin, því liðin voru það jöfn, að allir fengu glæsileg fyrstu verðlaun, og enginn tapaði! Þrátt fyrir harða og gáskafulla íþróttakeppni allra aldurshópa, þurfti ekki að nota nema einn lítinn plástur á lítið hné, og það var kvöldið áður.

 

Sundlaugin gerði sitt til að auka enn á ánægju dagsins, því margir notuðu sér „Kanarí“hitann og blíðuna við laugina. Eini ókosturinn var, að geta ekki verið nema á einum stað í einu, því alls staðar var svo gaman.

 

Um kvöldið var sameiginlegt borðhald í íþróttahúsinu, hlaðborð fyrir á þriðja hundrað manns. Margir höfðu orð á, hve fljótt og greiðlega gekk að afgreiða matinn, og hvað hann var mikill, fjölbreyttur og góður. Allt starfsfólkið að Laugum, á hótelinu, sundlauginni og alls staðar, var svo einstaklega almennilegt og allt gekk án minnstu vandamála. Hljómsveitin var búin að koma sínum tækjum fyrir á senunni og á meðan veislan stóð yfir, kom í ljós hvað margvíslegir hæfileikar búa í afkomendum og tengdafólki Línu Dalrósar, því það var stanslaust heimatilbúið skemmtiefni í gangi allan tímann, og allir velkomnir á sviðið. Börnin létu ekki sitt eftir liggja, því m.a. spiluðu þau á þverflautu og trompet, auk þess sem einn átta ára snáði söng allt íslenska Evrovison lagið á ensku, án undir leiks, við mikinn fögnuð allra og mest undrandi urðu foreldrar hans, því þau vissu ekki að hann kynni þetta. Síðan tók hljómsveitin við, og það var erfitt að trúa því að aðeins sumir hljómsveitarmanna höfðu nokkrum sinnum æft saman. Ekkert trommusett var á staðnum, en bætt var úr því með majonesfötu, pottum og hnífum, og einn færasti trommuleikari landsins (sem auðvitað er í ætt inni), náði ótrúlega góðum hljómum út úr því. Og enginn skortur var á söngfólki með hljómsveitinni. Það var stanslaust fjör til kl. 3, og hljómsveitin tók aldrei neina „pásu“ allan tímann.

 

Á sunnudagsmorgun, í áfram haldandi sól og blíðu, var farið í gönguferð á Tungustapa og sagðar álfasögur um hann. Um hádegi var samkomunni slitið og dreifðist ættin aftur um allt land, og víðar, því tveir frændurnir fóru strax um morguninn, annar mætti til starfa í Þýskalandi morguninn eftir, og hinn, sem kom frá Atlanta í Bandaríkjunum, mætti þar aftur í vinnu á mánudagsmorgni. Edduhótelið að Laugum í Sælingsdal er einstaklega góður staður fyrir samkomur eins og þessa, sem er mjög jákvæður og sérstakur þáttur í þjóðlífinu. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra mótsgesta, yngri sem eldri, þegar ég flyt öllu starfsfólki hótelsins og sundlaugarinnar innilegasta þakklæti fyrir frábæra þjónustu við allan þennan stóra hóp. Hún var á allan hátt til fyrirmyndar. Mér tókst aðeins að líta inn á byggðasafnið, og það er vissulega þess virði að skoða það í góðu næði. Hún stóð sig vel, undirbúningsnefndin. Bæði börn og fullorðnir sögðust aldrei hafa skemmt sér svona vel, og spurðu hvenær ætti að mæta næst. Ekki féll einn einasti skuggi á þessa fjölmennu samkomu sem var haldin í tilefni hundrað ára minningar, þakklætis og virðingar Línu Dalrósar Gísladóttur í Bolungarvík. Svo sannarlega ríkti hennar andi yfir öllum þessum fagnaðarfundi.

Grein skrifuð af Óskari Jóhannssyni birtist í Morgunblaðinu 22.9.2004 í tilefni aldarminningar Línu Dalrósar Gísladóttur.