Ættarmót 2004

laugar_i_saelingsdal

Staður: Laugar í Sælingsdal

Dagsetning: 13-15. ágúst 2004

Grein skrifuð af Óskari Jóhannssyni birtist í Morgunblaðinu 22.9.2004 í tilefni aldarminningar Línu Dalrósar Gísladóttur.

Í SEPTEMBER 2003 var nefnd barnabarna Línu sett á laggirnar til að halda ættar og niðjamótið 2004. Ekki komu margir staðir til greina sem gætu með góðu móti tekið á móti svo stórum hóp. Ákveðið var að semja við Edduhótelið að Laugum í Sælingsdal, um helgina 13. til 15. ágúst.

Gerð var heimasíða með upplýsingum um ættarmótið. Þessi heimasíða verður í notkun áfram. Margvíslegt hæfileikafólk finnst í svo fjölmennri ætt, og var m.a. stofnuð hljómsveit sem hélt nokkrar æfingar í vetur, og búseta á Ísafirði kom ekki í veg fyrir að menn mættu á æfingar í Reykjavík. Nefndin yfirfór og uppfærði niðjatalið ásamt kennitölum þeirra og tengdafólksins, og gaf út í bók, þar sem síðasti afkomandinn bættist við hinn 7. ágúst sl. (Og einn bættist við 28. ágúst.) Á föstudagskvöldi, í blíðskaparveðri, kom hver bílfarmurinn eftir annan af brosandi fólki á stæðið utan við hótelið að Laugum, og allir föðmuðust og kysstust, og alltaf bættist við. Útlendingar sem voru að bisa við hjólin sín utan við hótelið, urðu undrandi á svipinn, og skildu ekkert í þessu fólki. Allir fengu þau herbergi sem um var beðið, og allt gekk einstaklega vel og ljúflega.

Elinrós

Helgistund í brekkunni við tjaldstæðin. Séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Grundarfirði

Tjaldstæðið fylltist af tjöldum, tjaldvögnum og húsbílum, og kveikt var í stóru grilli og mörgum minni. Afhent voru barmmerki með tíu litum, sínum lit fyrir hvern hóp. Formleg setning og brekkusöngur fór svo fram við tjald stæðið, og einlægur fögnuður og vinátta ríkti hvarvetna. Á laugardag kl. 8 til 10 voru spjöld með fjölskyldumyndum hengd upp í íþróttahúsinu. Kl. 11 fór fram helgistund í brekkunni við tjaldstæðin. Séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Grundarfirði, sem er tengdadóttir eins af sonum Línu Dalrósar, minntist ættmóðurinnar, látinna manna hennar og ástvina úr fjölskyldunni. Öllum kom saman um að þetta var einstaklega hugljúf og falleg athöfn.

 

Eftir hádegið fór fram íþróttakeppni. Tíu lið tóku þátt í keppninni, og var keppt í ýmsum skrautlegum og fjölbreyttum greinum. Mikill áhugi var á keppninni, sem sjá má af því að einn tveggja ára vildi ólmur keppa í pokahlaupinu, og stóð sig vel, og þegar halla tók á eitt liðið í reiptoginu, bættist ein tæplega 75 ára amman í hópinn og bjargaði málinu. Allir höfðu mikla ánægju af þessari spennandi keppni, og ekki dró úr ánægjunni, þegar dómnefndin tilkynnti úrslitin, því liðin voru það jöfn, að allir fengu glæsileg fyrstu verðlaun, og enginn tapaði! Þrátt fyrir harða og gáskafulla íþróttakeppni allra aldurshópa, þurfti ekki að nota nema einn lítinn plástur á lítið hné, og það var kvöldið áður.

Sundlaugin gerði sitt til að auka enn á ánægju dagsins, því margir notuðu sér „Kanarí“hitann og blíðuna við laugina. Eini ókosturinn var, að geta ekki verið nema á einum stað í einu, því alls staðar var svo gaman.

Um kvöldið var sameiginlegt borðhald í íþróttahúsinu, hlaðborð fyrir á þriðja hundrað manns. Margir höfðu orð á, hve fljótt og greiðlega gekk að afgreiða matinn, og hvað hann var mikill, fjölbreyttur og góður. Allt starfsfólkið að Laugum, á hótelinu, sundlauginni og alls staðar, var svo einstaklega almennilegt og allt gekk án minnstu vandamála. Hljómsveitin var búin að koma sínum tækjum fyrir á senunni og á meðan veislan stóð yfir, kom í ljós hvað margvíslegir hæfileikar búa í afkomendum og tengdafólki Línu Dalrósar, því það var stanslaust heimatilbúið skemmtiefni í gangi allan tímann, og allir velkomnir á sviðið. Börnin létu ekki sitt eftir liggja, því m.a. spiluðu þau á þverflautu og trompet, auk þess sem einn átta ára snáði söng allt íslenska Evrovison lagið á ensku, án undir leiks, við mikinn fögnuð allra og mest undrandi urðu foreldrar hans, því þau vissu ekki að hann kynni þetta. Síðan tók hljómsveitin við, og það var erfitt að trúa því að aðeins sumir hljómsveitarmanna höfðu nokkrum sinnum æft saman. Ekkert trommusett var á staðnum, en bætt var úr því með majonesfötu, pottum og hnífum, og einn færasti trommuleikari landsins (sem auðvitað er í ætt inni), náði ótrúlega góðum hljómum út úr því. Og enginn skortur var á söngfólki með hljómsveitinni. Það var stanslaust fjör til kl. 3, og hljómsveitin tók aldrei neina „pásu“ allan tímann.

2004_aett_songur

F.v. Steingrímur Kristjónsson,Helga,Rósa og Óskar Óskarsbörn og Elínborg Sturludóttir sungu við helgistundina

Á sunnudagsmorgun, í áfram haldandi sól og blíðu, var farið í gönguferð á Tungustapa og sagðar álfasögur um hann. Um hádegi var samkomunni slitið og dreifðist ættin aftur um allt land, og víðar, því tveir frændurnir fóru strax um morguninn, annar mætti til starfa í Þýskalandi morguninn eftir, og hinn, sem kom frá Atlanta í Bandaríkjunum, mætti þar aftur í vinnu á mánudagsmorgni. Edduhótelið að Laugum í Sælingsdal er einstaklega góður staður fyrir samkomur eins og þessa, sem er mjög jákvæður og sérstakur þáttur í þjóðlífinu. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra mótsgesta, yngri sem eldri, þegar ég flyt öllu starfsfólki hótelsins og sundlaugarinnar innilegasta þakklæti fyrir frábæra þjónustu við allan þennan stóra hóp. Hún var á allan hátt til fyrirmyndar. Mér tókst aðeins að líta inn á byggðasafnið, og það er vissulega þess virði að skoða það í góðu næði. Hún stóð sig vel, undirbúningsnefndin. Bæði börn og fullorðnir sögðust aldrei hafa skemmt sér svona vel, og spurðu hvenær ætti að mæta næst. Ekki féll einn einasti skuggi á þessa fjölmennu samkomu sem var haldin í tilefni hundrað ára minningar, þakklætis og virðingar Línu Dalrósar Gísladóttur í Bolungarvík. Svo sannarlega ríkti hennar andi yfir öllum þessum fagnaðarfundi.

Grein þessi er skrifuð af Óskari Jóhannssyni og birtist í Morgunblaðinu 22.9.2004

Endilega sendið mér myndir eða annað efni til þess að hafa hér á síðunni.

Það má senda til : johann.kristjonsson@gmail.com

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s