Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2013

Sigurvin minningargrein

Sigurvin Jónsson fæddist í Bolungarvík 13. ágúst 1937. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík á jóladag, 25. desember 2012.

Foreldrar hans voru Lína Dalrós Gísladóttir fiskverkakona, f. 22.9. 1904 í Bolungarvík, d. 14.12. 1997, og Jón Ásgeir Jónsson sjómaður, f. 9.0. 1911 á Ísafirði, d. 1.10. 1996.

Lína Dalrós eignaðist tíu börn sem komust á legg, sex með fyrri eiginmanni sínum og fjögur með Jóni Ásgeiri og var Sigurvin næstyngstur þeirra systkina. Systkini Sigurvins eru í aldursröð: Guðmunda, Gísli, Guðbjörg, Óskar, Áslaug, Jóhann Líndal, Alda, Herbert, og Sveinn Viðar.

Sigurvin kvæntist Aðalheiði Halldóru Guðbjörnsdóttur 25.12. 1958. Þau slitu samvistum. Aðalheiður Halldóra og Sigurvin eignuðust sjö börn en þar af komust fimm á legg. Börn þeirra eru: 1) Oddný Lína, f. 1.5. 1958. Börn hennar eru: a) Oddur Andri, f. 12.12. 1983, b) Charlotta Rós, f. 16.11. 1990. 2) Guðbjörn Magnús, f. 8.6. 1959. Eiginkona hans er Þórunn Einarsdóttir, f. 9.4. 1959. Börn þeirra eru: a) Hjálmar Gunnar, f. 14.12. 1979, b) Aðalheiður Halldóra, f. 12.1. 1981. c) Guðbjörn Heiðar, f. 31.1. 1984, d) Anna Þórunn, f. 22.4. 1988. 3) Viktor Jón Sigurvinsson, f. 13.6. 1961. Sambýliskona hans er Ólína Berglind Sverrisdóttir, f. 18.8. 1963. Börn þeirra eru: a) Ágúst Sverrir, f. 19.12. 1980, d. 27.6. 1988, b) Kolbrún Eva, f. 14.12 1983, c) Sigurvin Sindri, f. 4.10. 1987, d) Sverrir Bergmann, f. 31.7. 1992, e) Brynjar Þór Viktorsson, f. 9.9. 1995. 4) Sigurvin Heiðar Sigurvinsson, f. 25.11. 1962. Eiginkona hans er Auður Auðunsdóttir, f. 5.12. 1964. Börn þeirra eru: a) Árný Eva, f. 18.1. 1985, b) tvíburasynir, f. 12.1. 1991, d. 12.1. 1991, c) Ragna Ýr, f. 1.6. 1992, d) Auðunn Orri, f. 24.1. 1996. 5) Kolbrún Eva, f. 30.3. 1964, d. 13.3. 1964. 6) drengur, f. 24.10. 1965, d. 29.10. 1965. 7) Jón Ásgeir Sigurvinsson, f. 21.12. 1970. Eiginkona hans er Elínborg Sturludóttir, f. 21.12. 1968. Börn þeirra eru: a) Hallgerður Kolbrún, f. 17.11. 1997, b) Sturla, f. 7.1. 2003, c) Kolbeinn Högni, f. 30.3. 2007.

Sigurvin og Aðalheiður hófu búskap á Ísafirði en fluttu fljótt til Bolungarvíkur. Þaðan lá leiðin í Reykholt, þar sem Sigurvin starfaði sem matsveinn í mötuneyti Héraðsskólans veturinn 1964-1965. Frá Reykholti flutti fjölskyldan síðan til Reykjavíkur. Hafði Sigurvin ýmis störf með höndum og var á stundum sjálfstæður atvinnurekandi. Þannig rak hann um tíma mötuneyti fyrir starfsfólk Álafossverksmiðjunnar og fiskverslun í Álfheimum í Reykjavík. Hann var matsveinn á ýmsum fraktskipum Eimskipafélagsins sem og á togurunum Vestmannaey og Drangey. Sigurvin var mötuneytisstjóri í mötuneyti SS og starfaði síðar í mötuneyti Hrafnistu í Reykjavík. Síðustu starfsárin starfaði Sigurvin sem eftirlitsmaður Hafrannsóknastofnunar á japönskum túnfiskveiðiskipum í íslenskri lögsögu.

Útför hans var gerð 3. janúar 2013, frá Áskirkju.

Það er komið bréf frá afa! hrópaði dóttir mín glaðlega þegar pósturinn hafði kastað þykkum bréfabunka inn um lúguna. Utan á eitt umslagið var nafn hennar handritað með skrifstöfum. Sonardóttir sendandans opnaði bréfið með mikilli eftirvæntingu. Litlu stúlkunni fannst sem tengslin við föðurfólkið væru ekki næg og hún vildi ráða bót á því. Hún var bara sjö ára og langaði til að komast í meira samband við afann í Reykjavík. Og hvað er þá til ráða? Maður stingur niður penna og skrifar honum bréf. Og þarna var svarið komið. Það var þakklátur maður sem svaraði sonardóttur sem hann hafði svo lítið haft af að segja fram að því og á milli þeirra Hallgerðar Kolbrúnar sem skírð var að síðara nafni eftir litlu dóttur hans sem dó svo ung, myndaðist nú vinaband sem varð til þess að farið var að rækta fjölskylduböndin á ný.

Ungur að árum þurfti tengdafaðir minn að fara að vinna fyrir sér, enda ólst hann upp í barnmargri fjölskyldu þar sem fátækt og skortur var oftast nærri. Móðir hans var annáluð dugnaðarkona sem varð tæplega þrítug ekkja með sex börn og það hefur ekki skort hugrekkið hjá seinni eiginmanni hennar Jóni Ásgeir Jónssyni að hefja rúmlega tvítugur sambúð með þessari barnmörgu ekkju. Má það teljast mikið afrek hjá þeim að hafa komið upp þessum stóra barnahópi í því fátæktarbasli sem var í Bolungarvík á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Sigurvin fór á síld strax eftir fermingu og þar með var lífsbaráttan hafin fyrir alvöru. Þegar ég heyri sjómannalögin frá sjötta áratugnum finnst mér alltaf að verið sé að syngja um líf tengdaföður míns!

Það var mikil rómantík í kringum sjómannslífið á þessum árum og sjómenn voru hetjur hafsins. Það vafðist heldur ekki fyrir Sigurvini að næla í eina af fegurstu blómarósunum sem gengu um strætin á Ísafirði um miðjan sjötta áratuginn. Dóra var gullfalleg og af myndum að dæma hafa þau verið glæsilegt par. Á jóladag 1958 gengu þau í hjónaband og við sama tækifæri var frumburður þeirra skírður. Síðan fæddust börnin eitt af öðru. Sigurvin og Dóra misstu tvö nýfædd börn á tæplega tveimur árum. Án efa hefur svo mikill missir markað djúp spor í sálarlíf þeirra. Sigurvin bjó yfir persónutöfrum og átti auðvelt með að kynnast fólki. Honum þótti gaman að skemmta sér og hafa fólk í kringum sig. En smám saman hætti gleðskapurinn að verða dagamunur og varð að kvöð sem varð honum fjötur um fót.

Ævi tengdaföður míns getur verið uppspretta visku. Hann gerði mörg mistök en hann sýndi líka dugnað og nægjusemi sem er eftirbreytniverð. Kannski er mesti lærdómurinn sá að hann gafst aldrei upp þótt á móti blési. Ef til vill sagði þar til sín vestfirski uppruninn, þar sem hugrekki og þrautseigja var lykillinn að því að lifa af. Þegar jóladagur rann upp og kristnir menn fögnuðu fæðingu frelsarans, kvaddi Sigurvin þennan heim. Það finnst mér táknrænt og minnir mig á að bæði í lífi og dauða er hægt að finna fegurð og samræmi.

Elínborg Sturludóttir