Sigurður Magnússon


Frá Agnesi Jóhannsdóttur:
Fyrir u.þb. 20 árum var mér gefinn Strandapósturinn 1. árg. 1967, þar sem þessi grein er í um langafa minn þ.e. faðir Jóhanns Sigurðssonar sem var tengdapabbi Línu Dalrósar. Mig langaði að deila þessu með ykkur frændfóki mínu. Ég hafði gaman af að fá þetta í mínar hendur á sínum tíma. Var búin að vera að leita af þessu og svo allt í einu rak ég augun í þetta í bókahillunni hjá mér. Skil ekki hvernig þetta hefur farið fram hjá mér.:

Sigurður Magnússon

ÞANNIG MUNA MENN SIGURÐ MAGNÚSSON

 Hann Siggi Magnússon er kominn, flaug manna á milli um bæinn. Það var eins og vindkviða í mollu hversdagsleikans.

–“ Skyldi hann fara í leiki, syngja og dansa eins og í fyrra, er hann kom hér? Það var svo gaman. Hann fór í vefaraleik, mús og kött. Hann dansaði Óla skans, Jeg har været í London, Liverpool og Hull og margt fleira.

Svo kvað hann, meðal annars um karlinn sem hristi rauðan hausinn “.

Þetta sögðu unglingarnir og bættu við:“Nú má ekki gefa Lappa og Pílu neinn mat í kvöld, því Siggi ætlar að hreinsa þau á morgun.”

Þegar læknar og vísindamenn fundu orsakir sullaveikinnar á síðari hluta nítjándu aldarinnar, voru gefin út lög og strangar reglur um útrýmingu hennar, sem framkvæmd var á þann hátt að eyða bandormum, er höfðust við og tímguðust í meltingarfærum hundsins. Var því gjört að skyldu að fram færi árlega hreinsun þeirra. Urðu hluteigandi sveita- og sýsluyfirvöld að sjá til um það. Þetta verk var leiðinlegt , kaldsamt og óþrifalegt, voru því fáir sem fengust til að vinna það, en til þess að starfið næði tilgangi sínum varð að gæta þess vel að fylgja settum reglum og krafðist það því samviskusemi, trúmennsku og vandvirkni.

Þennan starfa hafði Sigurður á hendi um margra ára bil í innanverðri Strandasýslu og um Dali. – Hvernig hann leysti þetta af hendi, um það þarf ekki að fjölyrða. Samviskusemi og trúmennska var sterkur þáttur í hverju hans starfi.

Á þessum ferðalögum kynntist hann mörgum og persónuleiki hans gerði hann hvarvetna velkominn gest. Hann var sá, er kom langt að, gat blandað geði við fólk og hafði frá mörgu að segja. Koma hans setti svip sinn á heimilin – hans glaða leiklund – þótt ekki væri nema ein til tvær kvöldstundir.

Sigurður gekk oft undir nafninu Siggi hundalæknir. Það lét hann sig litlu skipta. Honum var aðalatriðið að starfið bæri tilætlaðan árangur, enda hinir hættulegu sjúkdómar, höfuðsótt í sauðfé og sullaveiki í mönnum, horfnir á tiltölulega fáum árum.

Á ferðum sínum hafði hann ætíð fyrirferðamikla byrði, föt sín, þar sem langdvöl að heiman var að jafnaði. Þá hafði hann oft með sér smíðatól – “áhöldin “ – því oft dvaldi hann á heimilum um tíma, við “að dikta að “ og smíða búsáhöld, bala, skjólur og kirnur, því margs þurftu búin við í viðhaldi og nýsmíði heimilisgagna.

Þegar Sigurður svo bætti við sig pinklum og pjönkum, vina og kunningja, var byrði hans oft býsna þung. Raddmaður var Sigurður ágætur, en um nám í þeirri mennt var ekki að ræða.

Hann skapaði sjálfur sínar stemmur og kvæðalög og skemmti hlustendum. Við, sem höfðum notið margra ánægjustunda með honum, álítum það verðskuldaðan heiður Sigurði til handa, er tónskáldið Jón Leifs náði á segulband rímnastemmu hans. – – –

—–

—–

– – – Sigurður var á ferð frá Hólmavík heim í sveitina sína, Tungusveit, labbandi að vanda með byrði í bak og fyrir. Hann kom að Hrófá og hitti Þorgeir bónda þar, er býður honum inn. Sigurður kvaðst eitthvað lasinn og linjulegur, ef hann mætti leggjast upp í rúm, sem þegar var veitt og honum hjálpað úr ytri klæðum, engra þrauta kvaðst hann kenna, en eftir fáar mínútur var hann fallinn í hinstu værð. –

Hin sérstæðu persónueinkenni Sigurðar voru svo skýr og sterk, að hann setti svip á samtíðina innan síns byggðarlags. – Því fannst okkur, sem af honum höfðu nokkur kynni, sem einn af sérstæðustu dröngum á Ströndum hefði fallið í hafið:

 

Sigurður Magnússon

Smagn2 Smagn3

Ein hugrenning um “Sigurður Magnússon

  1. Bakvísun: Mynd af Jóhanni Sigurðssyni | Lína Dalrós Gísladóttir

Lokað er fyrir athugasemdir.