Gísli Jóhannsson minningargrein


Minningargrein úr Mbl.

Minning: Gísli Jóhannsson garðyrkjumaður Fæddur 29. ágúst 1923 Dáinn 9. september 1989

Gísli Jóhannsson, Friðrikshúsi, Hjalteyri, andaðist í Borgarspítalanum í Reykjavík þ. 9. septembersl. eftir langa og erfiða baráttu. Hann verður jarðsettur að Möðruvöllum í Hörgárdal í dag, en kveðjuathöfn fór fram í Reykjavík 15. september.

Gísli var fæddur í Bolungarvík, næstelstur 6 barna Línu Dalrósar Gísladóttur og Jóhanns Sigurðssonar, sem upp komust. Sumarið 1932, þegar Gísli var tæplega 9 ára, an daðist faðir hans. Það sumar hafði Gísli ráðist til snúninga að Hóli í Bolungarvík og varð úr að hann ílentist þar til fermingaraldurs. Þá réðst hann sem vinnumaður í Æðey og var þar til tvítugsaldurs, en nám stundaði hann við Héraðsskólann í Reykjanesi. Síðan lá leiðin í Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi, og útskrifaðist hann þaðan árið 1946.

Þar kynntist hann eftirlifandi konu sinni Gyðu Antoníusardóttur. Þau giftust árið 1947, stofnuðu heimili í Hveragerði og störfuðu þar við garðyrkju. Þau fluttu að Hraunprýði í Nesjavallalandi, endurnýjuðu garðyrkjustöðina þar, og starfræktu hana í tæpan áratug. Þarnæst bjuggu þau í Þorlákshöfn og stundaði Gísli þar sjósókn. Árið 1968 festi hann kaup á landi vestan Ölfusár, og byggði þar frá grunni Gróðrarstöðina Ártún, ásamt íbúðarhúsi. Árið 1980 lét hann gamlan draum sinn rætast, að búa við sjóog róa til fiskjar á eigin skipi. Hann seldi stöðina í Ártúni, keyptir gamalt hús, Friðrikshús á Hjalteyri, og nýjan bát. Þrátt fyrir langvarandi heilsuleysi tókst þeim að endurbyggja húsið og gera það að mikilli staðarprýði.

Börn Gyðu og Gísla eru: Áslaug, gift Matthíasi Þorbergssyni, Akureyri, Sigurður Bjarni, kvæntur Guðnýju Ingimundardóttur, Djúpavogi, Jónína, gift Hjalta Ásmundssyni, Selfossi, Hjörtur, kvæntur Ernu Erlingsdóttur, Hrísey, og Elín, gift Júlíusi Þór Sveinssyni, Flúðum. Fyrir hjónaband eignaðist Gísli dóttur, Jóhönnu, sem alin var uppí Æðey. Maður hennar er Garðar Hannesson í Hafnarfirði.

Gyða missti fyrri mann sinn frá tveimur ungum börnum. Þau eru Helga gift Kjartani Pálssyni, Vaðnesi, Grímsnesi og Helgi kvæntur Auði Gústafsdóttur, Höfn, Hornafirði.

Eins og fyrr segir eignaðist Gísli 6 börn. Barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin 9. Systkini Gísla eru: Guðmunda, gift Kristjáni Pálssyni, Ísafirði, Guðbjörg, gift Kristni Finnbogasyni, Garðabæ, Óskar, kvæntur Elsu Friðriksdóttur, Reykjavík, Áslaug, gift Jóhannesi Guðjónssyni, Kópavogi, en hann er látinn, Jóhann Líndal, kvæntur Elsu Gestsdóttur, Njarðvík.

Með seinni manni sínum, Jóni Ásgeiri Jónssyni, eignaðist Lína fjögur börn, en þau eru: Alda gift Ingiberg Jensen, Reykjavík, Herbert, hann er látinn, var kvæntur Steinunni Felixdóttur, Reykjavík, Sigurvin kvæntur Halldóru Guðbjörnsdóttur, Reykjavík og Sveinn Viðar kvæntur Auði Vésteinsdóttur, Reykjavík.

Þegar Gyða og Gísli stofnuðu heimili sitt í Hveragerði fundum við Jóhann fljótt, hve gott var að heimsækja stóra bróður og konu hans, og eru helgarferðir okkar austur, meðal björtustu minninga unglingsáranna. Alla tíð hefur heimili þeirra verið rómað fyrir einstaka gestrisni, myndarskap og velvilja.

Þau hjónin störfuðu mikið saman og voru samhent um að láta öllu og öllum líða vel í nálægð sinni, hvort sem var fólk eða gróður, enda farnaðist þeim vel við garðyrkjuna og börn þeirra öll mesta efnisfólk.

Jafnvel fulltíða fólk, á í dag bágt með að setja sig í spor 8 ára drengs, sem verður að vinna fyrir sér hjá vandalausum, og um fermingu, aukþess að fara í burtu þangað sem hann átti engan að, kynnast af eigin reynslu þeirri hlið gamaldags „höfðingjaseturs“, sem að vinnu fólkinu sneri. Það var því meira en lítið afrek að rífa sig lausan og komast suður á Garðyrkjuskólann.

Þrátt fyrir erfiða æsku var Gísli alltaf léttur í skapi, ljúfur og vildi öllum vel. Hann bjó yfir einstakri frásagnarlist, og eru margar sögur hans úr daglega lífinu hreinustu perlur, því hann gat alltaf séð eitthvað jákvætt, lærdómsríkt og spaugilegt út úr því sem í fljótubragði virtust hversdagslegir at burðir.

Nú þegar við systkinin kveðjum Gísla minnumst við einnig Herberts, sem lést fyrir tæpum fjórumárum og átti sama afmælisdag og Gísli.

Svo vill til, að í dag er móðir okkar 85 ára og enn sem fyrr er okkur huggun af að hafa orð hennar í huga, en við dánarbeð Gísla varð henni að orði. „Mér hefur verið mikið gefið, – það væri vanþakklæti af minni hálfu að taka þvíekki möglunarlaust þegar eitthvaðaf því er aftur tekið, en minningin um góðan dreng lifir áfram hjá okkur.“

Gyðu vil ég færa innilegt þakklæti fyrir allt það sem hún lagði á sig til að geta verið hjá honum og hjúkrað í hans erfiðu baráttu.

Ég votta henni, börnum þeirra og fjölskyldum, okkar innilegustu samúð.

Fyrir hönd systkinanna,

Óskar Jóhannsson.