Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2009

Ágrip af sögu Bolungarvíkur

Í Landnámabók segir, að Þuríður sundafyllir nam land í Bolungarvík og bjó að Vatnsnesi í Syðridal.

Flest bendir til þess, að Þuríður og förunautar hennar hafi komið út til Íslands um 940. Þau námu Bolungarvík alla og Skálavík og einn landnámsmannanna, Þjóðólfur bróðir Þuríðar, bjó í Þjóðólfstungu sem síðar var nefnd Tunga í daglegu tali.

Eitthvað voru samskipti þeirra systkina þó stirð á köflum og samkvæmt þjóðsögunni lagði Þjóðólfur á systur sína að hún skyldi daga uppi. Það gekk eftir og varð Þuríður að steini sem enn ber nafn hennar og stendur efst í fjallinu, skammt frá svonefndri Óshyrnu.

Bolungarvík liggur vel að fiskimiðum í utanverðu Ísafjarðardjúpi og út af því og varð snemma helsta verstöð á norðanverðum Vestfjörðum.

Sjávarútvegur var jafnan helsti atvinnuvegur íbúanna og vísir að þéttbýli – sæbýlahverfi – reis á Bolungarvíkurmölum þegar á miðöldum. Þar var annars vegar um að ræða þurrabúðir og hjáleigur frá lögbýlum í Víkinni en hins vegar verbúðir en vermenn voru löngum fjölmennir í Bolungarvík á vertíðum.

Þar var einkum um að ræða menn úr öðrum sveitum við Ísafjarðardjúp en einnig eru mörg dæmi um menn sem voru komnir lengra að. Af miðaldaheimildum er ljóst að höfðingjar og ríkismenn sóttust eftir eignum og aðstöðu í Bolungarvík á fyrri öldum enda var útgerð og skreiðarverkun arðsamur atvinnuvegur eftir að kom fram á 14. og 15. öld.

Alla árabátaöldina var útgerð mikil úr Bolungarvík og réru þaðan tugir báta á hverri vertíð. Þegar kom fram um aldamótin 1900 var þar mesta árabátaverstöð á Vestfjörðum og á vetrarvertíðinni árið 1902 var fyrsta íslenska vélbátnum, Stanley, haldið til veiða úr Bolungarvík. Eftir að vélbátar komu til sögu olli hafnleysi og erfiðar lendingaraðstæður Bolvíkingum erfiðleikum um hríð og var þá hafist handa við gerð brimbrjóts og varanlegra hafnarframkvæmda.

Þær framkvæmdir gengu ekki þrautalaust fyrir sig en varð þó lokið um síðir.

Nú er í Bolungarvík góð höfn og mikinn hluta 20. aldar var þar mikil útgerð togara og stærri vélbáta í bland við minni báta sem margir stunduðu rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hluta úr ári.

Einar Guðfinnsson hf. var lengst af öldinni mest útgerðarfyrirtækja í Bolungarvík og rak, auk útgerðarinnar, umfangsmikla fiskverkun og verslun.

Varanlegt þéttbýli tók að myndast í Bolungarvík á síðari hluta 19. aldar. Það óx hægt framan af en tók kipp með tilkomu vélbátaútgerðar og þó einkum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Flestir urðu íbúar árið 1982, alls 1.298 en hefur fækkað töluvert síðustu árin og eru nú um 950.

Sveitarfélagið, sem tíðast er nefnt Bolungarvík í daglegu tali, hét öldum saman Hólshreppur og náði yfir Bolungarvík og Skálavík sem nú er farin í eyði.

Árið 1974 hlaut sveitarfélagið kaupstaðarréttindi og nefnist upp frá því Bolungarvíkurkaupstaður.

Höfundur: Jón Þ. Þór