Minningargrein 20.12.1997, höf:Hildur Einarsdóttir og Benedikt Bjarnason.


Það verður ekki héraðsbrestur, né veldur straumhvörfum í lífi þjóðar, þó að ellimóð kona ljúki jarðvist sinni, sem er eðlilegur gangur lífsins.

En við slík vegamót leita fram í hugann minningar og myndir frá liðnum tíma.

Í dag kveðjum við Bolvíkingar hinztu kveðju mikilhæfa mannkostakonu, af alþýðufólki komna, Línu Dalrós Gísladóttur.

Hún var mikil ræktunarmanneskja í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Lína var einlæg í trúnni og trúrækin. Treysti á handleiðslu Guðs. Naut þess að sækja kirkju sína, Hólskirkju. Í þeim helgidómi leið henni vel.

Hún hafði yndi af því að vinna í garðinum sínum, og hlúa að blómum og runnum þar, og síðast í sumar naut hún þess að komast í snertingu við moldina.

Líf hennar var löngum mótað af miklu annríki, umhyggju fyrir börnunum sínum mörgu og afkomendum þeirra, og mun nú eiga flesta núlifandi afkomendur í landinu. Börnin reyndust henni líka einstaklega vel, ræktarleg í bezta máta.

Hún var góðum gáfum gædd, stálminnug, og hélt andlegri reisn sinni fram til síðustu stundar. Kappsöm í störfum var hún og ósérhlífin, kvik í hreyfingum og létt á fæti, þótti gaman að dansa, skyldurækin og samvizkusöm, heil og hreinskiptin.

Á langri ævi vann hún byggðarlaginu mikið gagn með vinnusemi sinni og dugnaði. Hún var virkur þátttakandi í félagsmálum, m.a. var hún heiðursfélagi í kvenfélaginu Brautinni.

Lína naut almennra vinsælda, og setti af þeim sökum mjög svipmót sitt á umhverfið og samtíð sína í Víkinni, sem henni var svo kær.

Við áttum því láni að fagna að eiga hana að góðum nágranna í áratugi, og fyrir það erum við þakklát henni. Okkur þykir það því mjög miður að geta ekki komið því við að fylgja henni síðasta spölinn.

Hún Lína kvaddi þennan heim í svartasta skammdeginu. En innan skamms hefst gangan mót hækkandi sól á ný, sigri ljóssins yfir myrkrinu.

Megi það ljós lýsa henni fram á veginn til æðri leiða. Börnum og nánustu ástvinum hennar vottum við einlæga hluttekningu við þessi þáttaskil.

Hildur Einarsdóttir, Benedikt Bjarnason.