Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júní 2009

Minningargrein 20.12.1997, höf:Hildur Einarsdóttir og Benedikt Bjarnason.

Það verður ekki héraðsbrestur, né veldur straumhvörfum í lífi þjóðar, þó að ellimóð kona ljúki jarðvist sinni, sem er eðlilegur gangur lífsins.

En við slík vegamót leita fram í hugann minningar og myndir frá liðnum tíma.

Í dag kveðjum við Bolvíkingar hinztu kveðju mikilhæfa mannkostakonu, af alþýðufólki komna, Línu Dalrós Gísladóttur.

Hún var mikil ræktunarmanneskja í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Lína var einlæg í trúnni og trúrækin. Treysti á handleiðslu Guðs. Naut þess að sækja kirkju sína, Hólskirkju. Í þeim helgidómi leið henni vel.

Hún hafði yndi af því að vinna í garðinum sínum, og hlúa að blómum og runnum þar, og síðast í sumar naut hún þess að komast í snertingu við moldina.

Líf hennar var löngum mótað af miklu annríki, umhyggju fyrir börnunum sínum mörgu og afkomendum þeirra, og mun nú eiga flesta núlifandi afkomendur í landinu. Börnin reyndust henni líka einstaklega vel, ræktarleg í bezta máta.

Hún var góðum gáfum gædd, stálminnug, og hélt andlegri reisn sinni fram til síðustu stundar. Kappsöm í störfum var hún og ósérhlífin, kvik í hreyfingum og létt á fæti, þótti gaman að dansa, skyldurækin og samvizkusöm, heil og hreinskiptin.

Á langri ævi vann hún byggðarlaginu mikið gagn með vinnusemi sinni og dugnaði. Hún var virkur þátttakandi í félagsmálum, m.a. var hún heiðursfélagi í kvenfélaginu Brautinni.

Lína naut almennra vinsælda, og setti af þeim sökum mjög svipmót sitt á umhverfið og samtíð sína í Víkinni, sem henni var svo kær.

Við áttum því láni að fagna að eiga hana að góðum nágranna í áratugi, og fyrir það erum við þakklát henni. Okkur þykir það því mjög miður að geta ekki komið því við að fylgja henni síðasta spölinn.

Hún Lína kvaddi þennan heim í svartasta skammdeginu. En innan skamms hefst gangan mót hækkandi sól á ný, sigri ljóssins yfir myrkrinu.

Megi það ljós lýsa henni fram á veginn til æðri leiða. Börnum og nánustu ástvinum hennar vottum við einlæga hluttekningu við þessi þáttaskil.

Hildur Einarsdóttir, Benedikt Bjarnason.

Aldarminning Línu grein skrifuð 2004

Í SEPTEMBER í fyrra var nefnd barnabarna Línu sett á laggirnar til að halda ættar og niðjamót í sumar. Ekki komu margir staðir til greina sem gætu með góðu móti tekið á móti svo stórum hóp. Ákveðið var að semja við Edduhótelið að Laugum í Sælingsdal, um helgina 13. til 15. ágúst.

Gerð var heimasíða með upplýsingum um ættarmótið. Þessi heimasíða verður í notkun áfram. Margvíslegt hæfileikafólk finnst í svo fjölmennri ætt, og var m.a. stofnuð hljómsveit sem hélt nokkrar æfingar í vetur, og búseta á Ísafirði kom ekki í veg fyrir að menn mættu á æfingar í Reykjavík. Nefndin yfirfór og uppfærði niðjatalið ásamt kennitölum þeirra og tengdafólksins, og gaf út í bók, þar sem síðasti afkomandinn bættist við hinn 7. ágúst sl. (Og einn bættist við 28. ágúst.) Á föstudagskvöldi, í blíðskaparveðri, kom hver bílfarmurinn eftir annan af brosandi fólki á stæðið utan við hótelið að Laugum, og allir föðmuðust og kysstust, og alltaf bættist við. Útlendingar sem voru að bisa við hjólin sín utan við hótelið, urðu undrandi á svipinn, og skildu ekkert í þessu fólki. Allir fengu þau herbergi sem um var beðið, og allt gekk einstaklega vel og ljúflega.

 

Tjaldstæðið fylltist af tjöldum, tjaldvögnum og húsbílum, og kveikt var í stóru grilli og mörgum minni. Afhent voru barmmerki með tíu litum, sínum lit fyrir hvern hóp. Formleg setning og brekkusöngur fór svo fram við tjald stæðið, og einlægur fögnuður og vinátta ríkti hvarvetna. Á laugardag kl. 8 til 10 voru spjöld með fjölskyldumyndum hengd upp í íþróttahúsinu. Kl. 11 fór fram helgistund í brekkunni við tjaldstæðin. Séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Grundarfirði, sem er tengdadóttir eins af sonum Línu Dalrósar, minntist ættmóðurinnar, látinna manna hennar og ástvina úr fjölskyldunni. Öllum kom saman um að þetta var einstaklega hugljúf og falleg athöfn.

 

Eftir hádegið fór fram íþróttakeppni. Tíu lið tóku þátt í keppninni, og var keppt í ýmsum skrautlegum og fjölbreyttum greinum. Mikill áhugi var á keppninni, sem sjá má af því að einn tveggja ára vildi ólmur keppa í pokahlaupinu, og stóð sig vel, og þegar halla tók á eitt liðið í reiptoginu, bættist ein tæplega 75 ára amman í hópinn og bjargaði málinu. Allir höfðu mikla ánægju af þessari spennandi keppni, og ekki dró úr ánægjunni, þegar dómnefndin tilkynnti úrslitin, því liðin voru það jöfn, að allir fengu glæsileg fyrstu verðlaun, og enginn tapaði! Þrátt fyrir harða og gáskafulla íþróttakeppni allra aldurshópa, þurfti ekki að nota nema einn lítinn plástur á lítið hné, og það var kvöldið áður.

 

Sundlaugin gerði sitt til að auka enn á ánægju dagsins, því margir notuðu sér „Kanarí“hitann og blíðuna við laugina. Eini ókosturinn var, að geta ekki verið nema á einum stað í einu, því alls staðar var svo gaman.

 

Um kvöldið var sameiginlegt borðhald í íþróttahúsinu, hlaðborð fyrir á þriðja hundrað manns. Margir höfðu orð á, hve fljótt og greiðlega gekk að afgreiða matinn, og hvað hann var mikill, fjölbreyttur og góður. Allt starfsfólkið að Laugum, á hótelinu, sundlauginni og alls staðar, var svo einstaklega almennilegt og allt gekk án minnstu vandamála. Hljómsveitin var búin að koma sínum tækjum fyrir á senunni og á meðan veislan stóð yfir, kom í ljós hvað margvíslegir hæfileikar búa í afkomendum og tengdafólki Línu Dalrósar, því það var stanslaust heimatilbúið skemmtiefni í gangi allan tímann, og allir velkomnir á sviðið. Börnin létu ekki sitt eftir liggja, því m.a. spiluðu þau á þverflautu og trompet, auk þess sem einn átta ára snáði söng allt íslenska Evrovison lagið á ensku, án undir leiks, við mikinn fögnuð allra og mest undrandi urðu foreldrar hans, því þau vissu ekki að hann kynni þetta. Síðan tók hljómsveitin við, og það var erfitt að trúa því að aðeins sumir hljómsveitarmanna höfðu nokkrum sinnum æft saman. Ekkert trommusett var á staðnum, en bætt var úr því með majonesfötu, pottum og hnífum, og einn færasti trommuleikari landsins (sem auðvitað er í ætt inni), náði ótrúlega góðum hljómum út úr því. Og enginn skortur var á söngfólki með hljómsveitinni. Það var stanslaust fjör til kl. 3, og hljómsveitin tók aldrei neina „pásu“ allan tímann.

 

Á sunnudagsmorgun, í áfram haldandi sól og blíðu, var farið í gönguferð á Tungustapa og sagðar álfasögur um hann. Um hádegi var samkomunni slitið og dreifðist ættin aftur um allt land, og víðar, því tveir frændurnir fóru strax um morguninn, annar mætti til starfa í Þýskalandi morguninn eftir, og hinn, sem kom frá Atlanta í Bandaríkjunum, mætti þar aftur í vinnu á mánudagsmorgni. Edduhótelið að Laugum í Sælingsdal er einstaklega góður staður fyrir samkomur eins og þessa, sem er mjög jákvæður og sérstakur þáttur í þjóðlífinu. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra mótsgesta, yngri sem eldri, þegar ég flyt öllu starfsfólki hótelsins og sundlaugarinnar innilegasta þakklæti fyrir frábæra þjónustu við allan þennan stóra hóp. Hún var á allan hátt til fyrirmyndar. Mér tókst aðeins að líta inn á byggðasafnið, og það er vissulega þess virði að skoða það í góðu næði. Hún stóð sig vel, undirbúningsnefndin. Bæði börn og fullorðnir sögðust aldrei hafa skemmt sér svona vel, og spurðu hvenær ætti að mæta næst. Ekki féll einn einasti skuggi á þessa fjölmennu samkomu sem var haldin í tilefni hundrað ára minningar, þakklætis og virðingar Línu Dalrósar Gísladóttur í Bolungarvík. Svo sannarlega ríkti hennar andi yfir öllum þessum fagnaðarfundi.

Grein skrifuð af Óskari Jóhannssyni birtist í Morgunblaðinu 22.9.2004 í tilefni aldarminningar Línu Dalrósar Gísladóttur.

Minningargrein í Mbl 20.12.’97,höf. Ólafur Kristjánsson, Bolungarvík.

Lína Dalrós GísladóttirLína Dalrós Gísladóttir á Bolungarvík er látin. Hún hafði átt við vanheilsu að stríða síðustu mánuði auk þess að verða fyrir byltu og lærbrotna tveimur dögum fyrir andlátið.

Fráfall hennar kom því ekki á óvart, aldurinn orðinn hár ­ 93 ár ­ og hún farin að kröftum eftir langa og erfiða en farsæla ævidaga.

Ung að árum giftist hún Jóhanni Sigurðssyni frá Vonarholti, Strandasýslu, og átti með honum sjö börn, en þau misstu eitt skömmu eftir fæðingu. Jóhann lést um aldur fram eftir erfiða sjúkdómslegu. Samvera hans með Línu og börnunum varð því sorglega stutt eða eins 9 ár.

Það var þung raun fyrir 27 ára gamla konu að standa ein uppi með sex börn, öll á unga aldri, húsakynni þröng, efni rýr, erfiðir tímar framundan, engar tryggingar né lífeyrissjóðir að leita til.

En skapstyrkur og dugnaður Línu, ásamt trú á kærleiksríkan Guð, hjálpaði henni til að ráða fram úr mesta vandanum. Með mikilli útsjónarsemi, sparnaði og agaðri stjórnun tókst henni aðdáunarvel að halda fjölskyldunni saman.

Hún tók t.d. um stund við starfi eiginmanns síns, sem hafði verið lifrarbræðslumaður hjá Einari Guðfinnssyni. Þannig barðist hún fyrir framfærslu fjölskyldu sinnar með margvíslegum hætti.

Saga hennar er í raun og veru saga fjölmargra sem á þessum árum bjuggu við erfið lífskjör, lítil efni og áttu fullt í fangi með að hafa ofan í sig og á.

Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson, d. 1996, og áttu þau sama fjögur börn. En Lína mun hafa verið sú kona á Íslandi sem eignaðist hvað mestan fjölda afkomenda, hátt á þriðja hundraðið.

Til að lýsa innsæi og þroska Línu við uppeldi barna sinna langar mig að vitna til frásagnar Óskars, sonar hennar, sem gæti heitið: Vertu trúr yfir litlu, þá mun þér farnast vel.

“Á kreppuárunum var geitin mjólkurkýr fátæka mannsins í Bolungarvík, enda lítið um mjólk og enn minna um peninga, en Lína átti eina. Þegar búið var að mjólka geitina dagslega þurfti að koma henni til fóðurs í Traðarhlíð. Óskar hafði þann starfa á höndum. Það kostaði svolitla rúgbrauðsskorpu að koma geitinni af stað. Áður en farið var af stað fékk hún helminginn, en hinn á áfangastað. Einn daginn var engin brauðskorpa til, en aftur á móti til ilmandi og rjúkandi rúgbrauðssneið. Geitin fékk strax helminginn af sneiðinni og var rölt af stað, svo freistandi var lyktin að Óskar og Jóhann bróðir hans stóðust ekki mátið, nörtuðu í rúgbrauðssneiðina góðu á leiðinni í haga, og svo fór að þegar komið var á áfangastað var ekkert brauð eftir handa geitinni. Geitin heimtaði sinn síðari helming og þrátt fyrir öll brögð gáfust þeir bræður upp og héldu heim á leið með geitina á hælunum. Ekki varð hjá því komist að greina frá málavöxtum. Lína móðir þeirra greip í handlegg Óskars og segir við hann: “Geitin átti brauðið, og þér var trúað fyrir því. Láttu það aldrei koma fyrir þig aftur að bregðast þeim sem treysta þér fyrir einhverju, jafnvel þótt það sé aðeins lítill brauðmoli.” Síðan fá þeir aðra brauðsneið og ætla af stað að nýju, en þá gerist það að geitin stingur höfðinu inn í anddyrið og hrifsar eldsnöggt brauðið úr hendi Óskars. Ekki þurfti að hugsa sér að fara með hana aftur í haga, hún var búin að fá brauðið sitt og var nú komið upp nýtt vandamál. Geitin mundi verða að flækjast um allt þorpið og þurfti að hafa strangar gætur á henni allan daginn svo hún færi ekki í garða nágrannanna. Það var því verkefni þeirra bræðra það sem eftir var dags að passa geitina. Merkilegt hvað ein rúgbrauðssneið ­ ekki einu sinni með margaríni ofan á ­ getur orsakað mikil vandræði.”

Þessi saga er miklu lengri, en lýsir hugarfari og þroska Línu við að meta trúnað og samviskusemi öðru fremur.

Lína Dalrós var um margt óvenjuleg kona. Hún var, eins og áður hefur komið fram, mikill forkur til allrar vinnu, bæði utan sem innan heimilisins. Mikla unun hafði hún af hannyrðum og garðyrkju og var mjög félagslynd. Hún sótti kirkju vel og reglulega og hafði gaman af dansi, söng og tónlist.

Sá sem þetta ritar hefur áður sagt frá því að einn mesti lífsháski sem hann hefur komist í var að dansa fjörugan polka við Línu, en hún var létt á fæti og hafði mikið þol. Nú orðið ­ vegna aldurs ­ lætur hann sér nægja að dansa vangadans við Sigríði Guðjónsdóttur, sem nú syrgir látna vinkonu sína.

Dauðsfall eldri manneskju tökum við öðruvísi en þegar ung fellur frá. Þó er það svo að minningarnar spyrja ekki um aldur. Aðstandendur rifja upp liðna atburði frá ýmsum aldursskeiðum, sumir tengjast gleði, aðrir sorg og margs er að minnast og þakka fyrir.

Með Línu Dalrós er enn ein “rósin” fölnuð og fallin. Blómagarður okkar Bolvíkinga er fátækari nú en áður.

Samferðamenn hennar um langan aldur þakka henni samfylgdina og minnast hennar sem dugmikillar konu, konu sem sigraðist á miklum erfiðleikum, tókst að koma börnum sínum til mennta þrátt fyrir erfið lífskjör. Hún var kona sem gleymdi sjálfri sér og var fremur “þjónn” vina og vandamanna en “húsbóndi”. Minning hennar mun lengi lifa meðal Bolvíkinga og annarra þeirra er áttu því láni að fagna að kynnast verðleikum hennar, hæfileikum og góðvild.

Ég vil sem bæjarstjóri þakka henni framlagið til félagsstarfs í Bolungarvík og þau góðu áhrif sem hún hafði á samborgara sína alla tíð.

Við vitum að henni verður vel tekið á nýjum stað og biðjum henni blessunar þar. Við Lillý færum aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum góð kynni og vináttu við Línu Dalrós og fjölskyldu gegnum árin.

Ólafur Kristjánsson, Bolungarvík.

Afmæliskveðja vegna 80 ára afmælis LDG


Afmæliskveðja.

Ort vegna
80 á afmælis Línu.

 


Hér er lítið ljóð frá mér


mig langar til að sýna.


Eitt sinn voru víst hjá þér


verri  dagar Lína.


 


Í lifrarbræðslu nót og nótt


neyddist til að þræla.


Ekki var það eftirsótt


en ekki þýddi að væla.


 


Ófrísk sækja mátti mó


margt var þá að gera.


Unga dóttir áttir þó


einnig með að bera.


 


Fékkstu líka fisk að þvo


fisk að skera og pakka.


En þú heima áttir svo


alla þessa krakka.


 


Enda vil ég orðin mín


á þig sól mun skína.


Það fer víst ekki í fötin þín


fólkið núna Lína.

höf.Jóna Sigurðardóttir